Undanfarin ár hefur RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sýnt eina klassíska kvikmynd í bílabíói hátíðarinnar, og verður engin undantekning gerð frá þeirri reglu í ár, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá hátíðinni.
Í ár er það John Waters smellurinn Cry Baby með Johnny Depp í farabroddi sem prýðir hvíta tjaldið, en myndin á einmitt 20 ára afmæli í ár. Myndin verður sýnd í flugskýli 3 við Reykjavíkurflugvöll miðvikudagskvöldið 29. september næstkomandi og hefst sýningin kl. 21. Farið er að skýlinu í gegnum Skerjafjörðinn. Mögulegt verður að keyra inn í flugskýlið og verður hægt að ná hljóðrás myndarinnar í gegnum útvarpstæki í bílunum.
Cry Baby fylgir eftir ólánsömum elskendum úr sitthvorri klíkunni þar sem litríkir karakterar á borð við Hatchet-face og Iggy Pop koma við sögu. Þótt myndin hafi ekki hlotið metaðsókn þegar hún var frumsýnd í kvikmyndahúsum á sínum tíma hefur hún notið mikilla vinsælda alla tíð síðan, og er fyrir löngu orðið óhætt að kalla hana költ-mynd.
Bílabíóið er sett upp í samvinnu við Umferðarstofu.