Death Wish leikstjóri látinn

Breski kvikmyndaleikstjórinn Michael Winner, sem er best þekktur fyrir spennutryllinn Death Wish frá árinu 1974,  með Charles Bronson í aðalhluverkinu, er látinn 77 ára að aldri. Winner skildi við á heimili sínu í Lundúnum, en hann hafði átt við veikindi að stríða, að því er bandaríska dagblaðið Los Angeles Times hefur eftir eftirlifandi eiginkonu hans Geraldine.

Winner hefur glímt við hjarta- og lifrarvandamál um tíma, en samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar, sögðu læknar honum síðasta sumar að hann ætti í mesta lagi 18 mánuði eftir ólifaða.

Winner, sem var fæddur í London árið 1935, leikstýrði meira en 30 myndum á ferlinum, þar á meðal metsölumyndinni Scorpio frá 1973. Hann varð síðar veitingahúsarýnir fyrir breska dagblaðið The London Sunday Times.

Winner var litríkur karakter og var ekkert að stressa sig á því að taka sig of alvarlega sem leikstjóra. „Ef þú vilt list, ekki vera að pæla í kvikmyndum. Kauptu þér Picasso,“ sagði Winner eitt sinn.