Þau óvæntu tíðindi eru að berast frá Bandaríkjunum að fjölskyldumyndin Diary of a Wimpy Kid: Rodrick Rules hafi náð efsta sætinu á tekjulista bíóhúsa þar í landi, á meðan stórmynd Zacks Snyder, Sucker Punch, hafi þurft að sætta sig við annað sætið.
Þessi tíðindi hljóta að teljast vonbrigði fyrir Zack og félaga, því myndin var fjórfalt dýrari en Diary of a Wimpy Kid 2 í framleiðslu og hafði verið auglýst stanslaust í tæpt ár. Myndin náði aðeins um 19 milljónum dollara í kassann um helgina og þar af voru rúmar 8 á föstudeginum, sem þýðir að horfur á áframhaldandi aðsókn eru dökkar. Er þetta lægri tala en báðar Kill Bill-myndirnar, báðar Tomb Raider-myndirnar, báðar Underworld-myndirnar og þrjár síðustu Resident Evil-myndir fengu, en þær eru allar kvenhetju-hasarmyndir eins og Sucker Punch. Sé miðað við fyrri myndir Zacks Snyder eru vonbrigðin enn augljósari, því tekjurnar voru lægri en af fyrstu mynd hans, Dawn of the Dead-endurgerðinni (26 milljónir) og aðeins brot af opnunarhelgum Watchmen (55 millur) og 300 (70 f***ing millur takk fyrir).
Á meðan tók Diary of a Wimpy Kid: Rodrick Rules, framhald Diary of a Wimpy Kid, sem kom nýlega beint út á DVD á Íslandi en sló í gegn í fyrra í Bandaríkjunum, inn heilar 24,4 milljónir dollara, sem er ívið meira en fyrri myndin (22 millur).
Annars vakti það athygli að bæði Limitless og The Lincoln Lawyer, sem voru frumsýndar um síðustu helgi, héldu furðumikilli aðsókn milli helga, því The Lincoln Lawyer féll aðeins um 16% milli helga (11 millur) og Limitless um rétt rúm 19% (15,2), en þetta er afar óvenjulegt fyrir myndir sem þessar á þessum árstíma. Mjög gott orð fer af báðum myndum og því virðast áhorfendur hafa verðlaunað þær með góðri aðsókn um helgina.
Annars má sjá allan topp 20-listann á aðsóknarsíðunni hér til hliðar.
-Erlingur Grétar

