Bandaríski leikarinn Leonardo DiCaprio var staddur í viðtali hjá Ellen DeGeneres á dögunum og sagði frá því þegar hann lenti í sínum mesta lífsháska á lífsleiðinni.
DiCaprio hefur lengi barist fyrir réttindum dýra og var að kanna aðstæður hákarla í fríi sínu frá tökum á kvikmyndinni Blood Diamond, sem var gerð árið 2006. DiCaprio var staddur í búri neðansjávar þegar túnfiskur átti leið hjá búrinu, skyndilega kemur hvítur hákarl og ræðst á túnfiskinn, með þeim afleiðingum að hann skall inn í búrið.
„Þetta var risastór hvítur hákarl, mennirnir sem höfðu umsjón með búrinu sögðu að þetta hafði ekki gerst í 30 ár. Hann var hálfur inn í búrinu og ég lá þarna flatur á botninum.“
Lukkulega hafði hákarlinn meiri áhuga á túnfiskinum heldur en DiCaprio og hvarf eftir að hafa nælt sér í hann. Margir muna eftir atriðinu í kvikmyndinni The Beach þegar persóna DiCaprio drap hákarl. Í þetta skipti varð hvorki hann né hákarlinn fyrir barðinu, þó má með sanni segja að túnfiskurinn hefur átt betri daga.