Bíóáhugamenn á leið til London takið eftir! Frá og með 20. október nk. verður hægt að berja augum nokkra af frægustu búningum kvikmyndasögunnar í The Victoria and Albert safninu, eðaV&A safninu eins og það er kallað.
Á meðal þeirra búninga sem verða til sýnis er diskógallinn hans John Travolta sem hann klæddist á dansgólfinu í Saturday Night Fever, og stutti hvíti kjóllinn sem Sharon Stone var í þegar hún krossaði lappirnar í frægri yfirheyrslusenu í spennutryllinum Basic Instinct.
Nú vinna menn hörðum höndum í safninu að því að klæða gínur í búningana, en á meðal annarra búninga sem sýndir verða eru búningar úr myndum eins og The Wizard of Oz, Gone With the Wind og Breaktfast at Tiffany´s, að ógleymdum búningi sem Christopher Reeve heitinn klæddist í hlutverki sínu í Superman.
Ekki fylgir sögunni hvort að menn geti fengið að bregða sér í fötin og ímynda sér að maður sé kominn fyrir framan tökuvélarnar í Hollywood.