Þær eru ófáar bíómyndirnar sem fjalla um hákarla, og alltaf bætist í hópinn, ekki hvað síst í hóp B-hákarlamynda. Við höfum sagt frá Sharknado seríunni hér á síðunni, og nú er komið að fyrstu stiklunni úr Shark Exorcist, eða Hákarlasæringamanninum, í lauslegri snörun.
Í myndinni kynnumst við djöful- og morðóðri nunnu sem hrellir íbúa lítils fiskiþorps, en hún gerir samning við satan sjálfan, um að endurholdgast í líki hvíts risahákarls. Satan svarar kallinu og kemur sér fyrir í líkama ungrar konu úr þorpinu, og keðjuverkun illsku er þar með hafin. Nú þarf kaþólskur prestur að taka til sinna ráða til að senda þessa djöfla aftur til helvítis.
Leikstjóri myndarinnar er Donald Farmer sem þekktur er fyrir myndir eins og Country Strong og Blood Feast 2: All U Can Eat.
Stiklan er full af ekta b-mynda töktum.
Að neðan er einnig plakat myndarinnar.