Dolfallinn yfir Dune: „Þetta er ástæðan fyrir því að mig langaði til að verða leikari“


„Denis Villeneuve hefur frábær tök á persónudrifnum sögum, hvort sem þær eru stórar eða smáar í umfangi,“ segir leikarinn Timothée Chalamet um leikstjóra nýju DUNE kvikmyndarinnar. Í stuttu myndbroti sem sjá má hér að neðan er skyggnst á bak við tjöldin og rakin saga bæði myndarinnar og arfleið upprunalega verksins.

„Það er Frank Herbert að þakka að hér höfum við sögu á risaskala sem inniheldur karaktera, tilfinningar og sögur þeirra. Þetta er ástæðan fyrir því að mig langaði til að verða leikari,“ bætir Chalamet við og lofar framleiðsluna í hástert sem og leikstjóra sinn.

Dune byggir á samnefndri bók sem Herbert gaf úr árið 1956 og framhaldssögum hans. Hún fjallar í stuttu máli um Paul Atreides, fjölskyldu hans og baráttu þeirra við Harkonnen-ættina um plánetuna Arrakis, sem einnig kallast Dune. Meðal leikara í myndinni eru þau Chalamet, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Jason Momoa, Josh Brolin, Dave Bautista, Stellan Skarsgård, Zendaya og Javier Bardem.

Sagan gerist í ítarlegum söguheimi. Heilar mannfólks eru þjálfaðir í að framkvæma gífurlega flókna útreikninga og menn hafa náð mun meiri stjórn á hugsunum sínum og líkömum. Á plánetunni Arrakkis finnst Kryddið svonefnda, sem gerir mönnum kleift að efla heila sína enn frekar og meðal annars stýra geimskipum langar vegalengdir.

Plánetum í þessum söguheimi er stjórnað af aðalsættum og þeim er stýrt af keisara. Atreides-ættin tekur við stjórn Arrakis af Harkonnen-ættinni að skipan keisarans og á Leto Atreides að auka framleiðslu krydds en keisaraveldið stendur og fellur með því að tryggja framleiðslu kryddsins.

Dune verður frumsýnd á Íslandi 17. september, heilum fimm vikum á undan Bandaríkjunum.