Enn bætist í leikaralið „litlu“ Jon Favreau myndarinnar Chef, en við höfum sagt af og til fréttir af þessari mynd síðustu mánuðina. Nú er það enginn annar en Dustin Hoffman sem hefur slegist í hópinn ásamt Bobby Cannavale. Aðrir leikarar eru ekki af verri endanum; John Leguizamo, Robert Downey Jr., Scarlett Johansson, Jon Favreau, Sofía Vergara og Emjay Anthony.
Favreau er í fjórskiptu hlutverki í Chef; hann leikur aðalhlutverkið, leikstýrir, skrifar handritið og framleiðir.
Ekki er mikið vitað um söguþráðinn ennþá en í stórum dráttum þá fjallar myndin um matreiðslumann, sem Favreau mun leika, sem hættir í vinnunni og stofnar veitingahús á hjólum ( e. Food Truck ) til að „endurheimta listrænan sess sinn“.
Myndin er sjálfstæð framleiðsla, en fjármögnun hennar lauk á Cannes kvikmyndahátíðinni nú í vor. Myndin er nú í frekari undirbúningi í Los Angeles og hér fyrir neðan má sjá Vine myndskeið af því þegar Dustin Hoffman var kynntur til leiks: