Vel hefur gengið að selja kvikmyndina Dýrið (e. Lamb) eftir Valdimar Jóhannsson, en kvikmyndamarkaðurinn í Cannes hefur staðið yfir á netinu undanfarna daga.
Fréttamiðillinn Variety greindi fyrst frá því þegar gengið var frá samningum um dreifingu kvikmyndarinnar í Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Austurríki, Sviss og Slóvakíu, fyrrum löndum Júgóslavíu, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Valdimar skrifaði handritið að Dýrinu í samvinnu við Sjón og fara Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason með helstu hlutverk. Myndin, sem er sögð fara í sýningar á næsta ári, segir frá Maríu og Ingvari sem búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik.
Þær Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim framleiða Dýrið fyrir Go to Sheep, en meðframleiðendur koma frá Svíþjóð og Póllandi.