Dýrlingur verður að syndara. Q&A við Ian Ogilvy

Breski leikarinn Ian Ogilvy á að baki feril sem spannar rúma hálfa öld og er að enn þann dag í dag. Þekktastur er hann fyrir að hafa tekið við af Roger Moore sem Dýrlingurinn Simon Templar í sjónvarpsþáttunum „Return of the Saint“ (1978-1979).  Á þeim tíma kom hann til álita sem næsti James Bond en Moore var strax þá að íhuga að hætta sem njósnari hennar hátignar. Ian hefur einnig leikið í „cult“ myndum á borð við „Witchfinder General“ (1968), „From Beyond the Grave“ (1974) og „Death Becomes Her“ (1992) og hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum eins og „I, Claudius“, Upstairs Downstairs“, og „Murder, She Wrote“ svo fáeinir séu nefndir.

Ian gaf út ævisögu sína „Once A Saint“ á síðasta ári og væntanleg er á Blu-ray „We Still Steal the Old Way“ en hún er framhald af „We Still Kill the Old Way“ (2014) en þar leikur Ian aðalhlutverkið.

Haft var samband við Ian í tilefni af því að ein af hans fyrstu myndum, „Revenge of the Blood Beast“, var gefin út á Blu-ray fyrir stuttu. Eins og fram kom þar hefur Ian ekki mikið álit á þeirri mynd. Hann gaf sér tíma til að svara fleiri spurningum um feril sinn og fleira.

Ian sem Simon Templar í „Return of the Saint“

Ásamt Barböru Steele hefur þú starfað með fleiri þungavigtarmönnum í hryllingsgeiranum; þeim Boris Karloff, Vincent Price og Peter Cushing. Hvernig var að starfa með þessum goðsagnakenndu leikurum? Var einhver þægilegri að vinna með en annar?

Ásamt Boris Karloff í „Sorcerers“

Boris var þægilegri en Vincent en ef þú tekur eftir mínútunum sem ég eyði með þeim á skjánum þá sérðu að ég vann ekki mikið með þeim. Í „Sorcerers“ eru þetta bara tvö til þrjú atriði í upphafi myndar með Boris og í „Witchfinder“ eru þetta síðustu tíu mínúturnar með Vincent. Boris var sýnilega þakklátur fyrir að fá hlutverk í kvikmynd en Vincent var það ekki. Peter Cushing var sorgmæddur eftir að hafa misst eiginkonu sína en það var mjög gott að vinna með honum.

 

Þú lékst aukahlutverk í tveimur stórum myndum, „Waterloo“ og „Wuthering Heights“ (báðar árið 1970), sem enn eiga eftir að koma á Blu-ray. Eru þær þess virði að endurmeta?

 „Waterloo“ er hreint stórkostleg. Við vorum með 20.000 statista sem mynduðu Rauða Herinn. Það var engin tölvutækni á þessum tíma. Bardagaatriðin voru af ótrúlegri stærðargráðu. Myndin er ein af síðustu sannkölluðu stórmyndunum að mínu mati. En samt er þetta ekki mjög góð mynd. „Wuthering Heights“ er sæmileg en ekki þess virði að sjá. Ég sá hana fyrir stuttu en mér þótti hún ekkert sérstök.

Mynd sem þú lékst í árið 1970 sem heitir „The Invincible Six“ og skartar þeim Curt Jurgens og Elke Sommer hljómar spennandi en er algerlega ófáanleg. Er hún þess virði að enduruppgötva á Blu-ray?

Nei. Þetta er ein af þeim myndum sem ég lék í sem hefur horfið af sjónarsviðinu og það réttilega. Hreint fáránleg eftiröpun af „The Magnificent Seven.“ Ekki fjárfestingarinnar virði.

Þessa vill Ian að sem fæstir sjái

Þú hrepptir hlutverk Simon Templar í „Return of the Saint“ og fetaðir þar með í fótspor Roger Moore sem þessi heimsþekkta persóna. Hvernig kom það til?

Bob Baker, framleiðandi „The Saint“ þáttaraðarinnar, var að leita að hentugum leikara til að taka við af Roger Moore. Eiginkona hans hafði séð mig í þáttunum „Upstairs Downstairs“ og henni fannst mér svipa til Roger. Bob bauð mér í hádegisverð snemma á áttunda áratugnum og spurði mig hvort ég hefði áhuga á hlutverkinu. Svo heyrði ég ekki frá honum í nokkur ár. Það tók Bob þetta langan tíma að sannfæra Lord Grade (Lew Grade) um að fjármagna nýja þáttaseríu. Þannig að ég þurfti ekki að mæta í neina áheyrnarprufu eða neitt þvíumlíkt. Ég einfaldlega bara tók við af Roger Moore.

Einungis ein sería var framleidd af „Return of the Saint“ þrátt fyrir mikið áhorf og góða gagnrýni. Hvers vegna?

Lord Grade líkaði ekki hvað þættirnir voru dýrir í framleiðslu. Þeir voru mjög kostnaðarsamir á þessum tíma. Svo var það þannig að hann vildi vera kvikmyndaframleiðandi en ekki vinna í sjónvarpi. Allur ágóði frá sjónvarpsþáttunum sem hann framleiddi fór í röð af misheppnuðum kvikmyndum og að lokum glataði hann fyrirtækinu til suður-afrísks frumkvöðuls. Þátturinn minn var einfaldlega fórnarlamb í öllum þessum hræringum. Og „Góða gagnrýni“ segirðu! Þátturinn fékk einhverja verstu útreið sem ég hef lesið.

Uppáhaldsþátturinn í „Return of the Saint“ að mínu mati heitir „Armageddon Alternative“ en í honum hótar brjálæðingur að sprengja upp London. Átt þú þér uppáhalds þátt?

Já. Þessi sem gerist í Feneyjum. Besti staðurinn sem við mynduðum á og mótleikkonan var góð.

„Duel in Venice“ og mótleikkonan Carole André

Á þeim tíma þegar þættirnir voru í loftinu bar nafn þitt á góma þegar talað var um mögulegan næsta leikara til að leika James Bond. Hve nálægt komstu því að verða næsti njósnari hennar hátignar?

Alls ekki nálægt því. Nafninu mínu var fleygt fram í dagblöðum í hvert skipti sem því var velt upp hver ætti að verða næsti Bond. En það voru mörg önnur nöfn sem voru nefnd. Á endanum var mér sagt af manni sem tengdist myndabálknum að ef þeir vildu annan Roger Moore þá kæmi ég til greina. En þeir vildu annan Sean Connery þannig að ég fékk ekki hlutverkið.

Eftir að „Return of the Saint“ hætti voru hlutverk þín helst í sjónvarpsmyndum eða gestahlutverk í sjónvarpsþáttum, þ.á.m. fimm þættir í „Murder She Wrote“ og alltaf sem mismunandi persóna. Kunnirðu best við þig í sjónvarpi?

Árið 1989 flutti ég til Kaliforníu í Bandaríkjunum og fór að vinna fyrir mér sem leikari. Þar var ég nánast alveg óþekktur og það hentaði mér vel. Ég kunni vel við nafnleyndina og þetta var eins og nýtt upphaf. En ég kann betur við að leika í kvikmyndum en í sjónvarpi.

Þú leikur lítið og frekar óvenjulegt hlutverk í „Death Becomes Her“ sem skartar stórstjörnunum Meryl Streep, Bruce Willis og Goldie Hawn. Hvernig kom þetta hlutverk til?

Ég mætti í áheyrnarprufu og fékk Robert Zemeckis til að hlægja. Svo einfalt var það.

Ian í hlutverki sínu í „Death Becomes Her“

Árið 2014 snerir þú aftur í aðalhlutverki í myndinni „We Still Kill the Old Way“, frekar hrottalegri mynd um gamla glæpamenn. Dýrlingurinn orðinn að syndara. Hvernig kom það hlutverk til?

Þetta hlutverk kom skemmtilega á óvart fyrir mig. Þarna var ég að leika eitthvað sem ég hafði aldrei verið beðinn um áður. Ég býst við að ég var loksins orðinn nógu gamall, þungur og krumpaður til að leika aldraðan bófa. Í rauninni veit ég ekki hvernig þetta vildi til en ég held að leikarinn Martin Kemp (m.a. úr þáttunum „EastEnders“) hafi stungið upp á mér við framleiðanda myndarinnar. Það var vel gert af honum sérstaklega í ljósi þess að við höfðum aldrei hist áður.

Næstkomandi apríl er væntanleg framhaldsmyndin „We Still Steal the Old Way“ á Blu-ray. Hvað finnst þér um þá mynd? Er myndabálkur í uppsiglingu?

Myndabálkur? Það væri gaman að því en ég efast um það. Ég hef enn ekki séð myndina og get því ekki tjáð mig um hana.

Á síðasta ári kom út ævisagan þín; „Once a Saint“. Hvernig var að koma á blað lífi þínu og ferli?

Það var mjög gaman. Ég þekkti söguþráðinn vel og því voru skrifin auðveld. Ég vona innilega að allir lesi hana. Hún er mjög góð, ég lofa…

Hvað er svo næst hjá Ian Ogilvy?

Næsti stóri viðburðurinn hjá mér er vafalaust dauðinn.

„We Still Steal the Old Way“ er væntanleg á Blu-ray þann 17. apríl.