„Kvikmyndaiðnaðurinn hefur sannað sig sem mikilvægur hluti af hagsæld og menningu þjóðarinnar og svo þarf að vera áfram. En það má gera betur,“ segir Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna (FK), sem hefur opnað nýjan og uppfærðan vef á slóðinni fkvik.is.
Sigríður segir í tilkynningu á vefnum að þurfi að þrýsta á stjórnvöld um að auka fjármagn til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og hækka endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar í 35%. Þá undirstrikar hún að þurfi jafnframt að taka skref í að efla menntun í kvikmyndagerð og starfsöryggi innan greinarinnar.
Ósýnilega fólkið
„Á undanförnum vikum hefur stjórnin fundið fyrir þungum áhyggjum forsvarsmanna kvikmyndaiðnaðar á Íslandi vegna slæmrar stöðu starfsfólks innan greinarinnar á tímum COVID-19, en um leið vilja þeirra um að vera okkur innan handar í okkar baráttu,“ skrifar Sigríður og heldur áfram:
„Við þær fordæmalausu aðstæður og áskoranir sem þjóðin hefur þurft að glíma við síðastliðna mánuði, hefur það komið í ljós að þau úrræði sem í boði eru henta ekki mörgum af okkar félagsmönnum. Slíkt hefur skapað falskt öryggi fyrir verktaka í skapandi greinum, sem margir hverjir upplifa sig nú í flugvél með bilaðan lendingarbúnað.
Við þurfum að lyfta grettistaki og hætta að vera „ósýnilega fólkið,“ fólkið á bak við tjöldin.“