Hvaða persónur í íslenskum kvikmyndum hafa staðið upp úr sögunni í gegnum áraraðirnar?
Þessu hafa eflaust margir spurt sig um enda úr ýmsu að taka þegar kemur að karakterum sem eiga sinn sess í hjörtum og menningarsögu landans.
Leikkonan og kvikmyndagerðarkonan Telma Huld Jóhannesdóttir (Webcam, Eden) birti nýverið færslu í Facebook-hópnum Kvikmyndaáhugamenn þar sem hún spurði meðlimi grúppunnar hvaða karakterar úr íslenskum bíómyndum þeim þættu mest bera af í kvikmyndasögunni. Telma notar orðið „iconic“ og spyr sérstaklega um persónur sem annaðhvort er oft vitnað í eða er minnst með hlýhug og eru orðnir að mikilvægum þætti íslenskrar poppmenningar.
Sjálf segir hún Stellu Löve í túlkun Eddu Björgvinsdóttur eiga vinninginn. Kemur þó ekki á óvart að fleiri stóðu á því sama og kemur nafn hennar oft fram í þræðinum.
Þess ber að geta að Stella í orlofi verður sýnd á föstudagspartísýningu Bíó Paradísar þann 6. mars.
Það hefur aldeilis ekki staðið á svörum við færslu og fyrirspurn Telmu og hafa hátt í hundrað manns lagt fram sínar tilnefningar. Eins og mátti búast við voru ýmsar persónur sem dúkkuðu upp hjá fólki sem flestir voru sammála um.
Þetta eru þær persónur úr íslenskum kvikmyndum sem flestir töldu upp.
Axel – Sódóma Reykjavík (1992)
„Björn Jörundur… og bara allt úr Sódómu er snilld“
Stella Löve – Stella í orlofi (1986)
„Það er endalaust hægt að vitna í hana Stellu,“ segir ein í grúppunni.
Brjánn – Sódóma Reykjavík (1992)
„Unnur….!!
Reyndar eru allir karakterarnir í Sódómu frábærir.“
Þór og Danni – Nýtt líf, Dalalíf, Löggulíf – (‘83-’85)
Georg Bjarnfreðarson – Vaktirnar + Bjarnfreðarson (2007-’09)
„Þó Georg sé ekki eins klassískur og margir aðrir, þá heyri ég enn í fólki vitna í fimm háskólagráður frekar reglulega, sé alveg fyrir mér að sá haldi áfram í minningum fólks,“ bætir einn við um sess Georgs í íslenskri menningu.
„Georg er náttúrulega risastórti icon,“ segir annar.
Salomon Gustavsson – Stella í orlofi (1986)
Harpa Sjöfn – Með allt á hreinu (1982)
Jónas Reynis – Dalalíf (1984)
Dúddi – Með allt á hreinu (1982)
Karólína – Djöflaeyjan (1996)
Ert þú sammála þessari upptalningu, eða finnst þér vanta einhverja góða persónu úr íslenskri kvikmyndasögu?
Lát heyra!