Eiginmaður Murphy látinn líka

Hjónakornin Simon Monjack og Brittany Murphy. Þau eru nú bæði látin.

Lögregla í Los Angeles í Bandaríkjunum segir að eiginmaður leikkonunnar Brittany Murphy heitinnar, hafi fundist látinn á sunnudagskvöld á heimili sínu í Hollywood Hills.

Ekki hefur verið gefin út dánarorsök, en verið er að rannsaka hana.

Fimm mánuðir eru síðan eiginkona hans, Brittany Murphy lést úr lungnabólgu, járnskorti, blóðleysi og margskonar lyfjaeitrun.

Dánardómstjóri sagði að Murphy hefði fengið hjartaáfall vegna lyfjanotkunar, og var lát hennar þann 20. desember sl. úrskurðað slys.