Ein af þeim myndum sem náði að raka inn nógu mikið af tekjum á síðasta ári til að koma út í plús, var spennumyndin The Accountant, um einhverfa leigumorðingjann Christian Wolff, sem Ben Affleck lék.
Nú hefur Warner Bros framleiðslufyrirtækið ákveðið að gera framhaldsmynd, og hefur borið víurnar á ný í Affleck og leikstjórann Gavin O’Connor meðal annarra.
Handritshöfundurinn Bill Dubuque og framleiðendurnir Lynette Howell Taylor og Mark Williams sitja nú sveitt við, samkvæmt Empire kvikmyndaritinu, til að koma þessu á koppinn.
Engar tímasetningar hafa verið gefnar enn sem komið er, en aðdáendur fyrri myndarinnar geta byrjað að láta sig hlakka til.
Söguþráður fyrstu myndarinnar er á þessa leið:
Christian Wolff var sannkallað undrabarn í stærð- og rúmfræði á kostnað félagslegra hæfileika enda var hann alltaf einn með sjálfum sér. Nú þegar hann er orðinn fullorðinn vinnur hann við að hvítþvo peninga hættulegustu glæpasamtaka heims með alls konar bókhaldsbrellum. En blikur eru á lofti. …