Varúð – spilliefni! Þessi frétt getur spillt fyrir þeim sem ætla að sjá Everest og vilja ekki vita hverjir létust í ferðinni á hæsta tind veraldar. Þeim er ráðlagt að hætta lestri, nú þegar.
Ekkja eins þeirra fjallgöngumanna sem kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, fjallar um er ánægð með útkomuna á hvíta tjaldinu.
„Ég hafði mínar efasemdir til að byrja með og óttaðist að þeir gætu ekki gert sögunni skil á sanngjarnan hátt. En þeir bjuggu til mynd sem sýnir í hnotskurn hvað gerðist árið 1996,“ sagði Jan Arnold en maðurinn hennar var einn af átta sem létu lífið á Mount Everest þetta ár.
Arnold tjáði sig um myndina þegar hún var sýnd í heimaborg hennar Nelson á Nýja-Sjálandi. Hún hafði áður farið á frumsýningu hennar í Feneyjum og í Los Angeles, þar sem hún gekk eftir rauða dreglinum innan um stjörnur myndarinnar.
Það eina sem Arnold saknaði úr Everest var að sjerparnir fengju meira vægi en þeir reyndu að bjarga eiginmanni hennar og félögum þegar þeir lentu í ógöngum á fjallinu. „Sjerparnir voru mennirnir á bak við leiðangurinn. Rob hafði miklar mætur á þeim,“ sagði hún.
Keira Knightley leikur Arnold í myndinni og þótti henni breska leikkonan standa sig vel. „Ég sagði eitt sinn að ég vildi óska þess að ég liti svona vel út þegar ég gréti.“