Einu sinni þótti magnað að sjá einn eða kannski tvo virta gæðaleikara í myndasögubíómynd. Marlon Brando stoppaði t.d. stutt í fyrstu alvöru Superman-myndinni áður en Gene Hackman tók svo við og dvaldi áfram. Jack Nicholson skellti sér í hlutverk Jókersins með bros á vör, leit út eins og látin frænka mín og missti sig í hlutverkinu. Martin Sheen lék síðan auðvitað vonda karlinn í Spawn (veit ekkert hvernig mér datt þá mynd í hug). Internetið þarf helst að vera duglegra við það að minnast á það oftar svo kappinn gleymir því aldrei. Annars eru þetta bara örfá dæmi og yrði sóun á orðafjölda að nefna fleiri.
Batman Begins snýr formúlunni beint á hausinn og býður ekki upp á neitt annað en alvöru snillinga í langflestum rullum. Slöku leikararnir eru í staðinn í algjörum minnihluta og skal ég glaðlega þiggja eina Katie Holmes gegn því að fá marga meistara eins og Gary Oldman, Liam Neeson, Tom Wilkinson, Morgan Freeman og Michael andskotans Caine! Christian Bale er sömuleiðis algjör meistari þegar hann leggur sig allan fram og Cillian Murphy getur verið magnaður í rétta hlutverkinu. Það hefur sjaldan gengið svona vel að selja manni (ofur)hetjumynd fyrirfram og tryggja það að maður taki hana 150% alvarlega.
Þessi samkoma er hreinlega goðsagnarkennd í orðsins fyllstu merkingu. Einu sinni var hlegið yfir tilhugsuninni um svona hasarblaðaræmur en Christopher „hinn óttalausi“ Nolan staðfestir það með stolti að besta leiðin til að sýna Batman í réttu ljósi er að týna burt allt sem hægt er að kalla kjánalegt við hann og setja hann í trúverðugan og raunsæjan heim. Þar erum við að tala um heim þar sem rökrétt útskýring er til fyrir hverri einustu ákvörðun, frá dramatíska búningnum hans til tækjanna sem hann notar eða leðurblökueyranna. Það gengur allt upp hjá Nolan og er ekki hægt að setja þessa snilldarhetju í eðlilegra umhverfi. Frekar en að vera þessi klassíska færibandsmynd um skikkjuklædda hetju sem sigrast á skúrkum og felur sig í myrkrinu er þetta umfram allt fullorðinsleg, sálfræðileg og hasardrifin saga um ótta. Ótta við völd, ótta við ábyrgð, ótta við sektarkennd eða ótta við mannvaxna leðurblöku sem gæti lamið þig á nokkrum sekúndum!
Batman Begins er eitthvað sem þurfti að gerast! Upprunalega fjögurra mynda Batman-serían, sem samanstendur af tveimur asnalega ólíkum tvennum, er eitthvað sem þurfti reyndar líka að gerast, bara svo þessi mynd gæti á endanum orðið að veruleika. Fyrstu tvær Tim Burton-myndirnar voru nauðsynlegar í lífi leikstjórans, því þar skaust ferillinn hátt upp í loft og leiddi til ýmissa (mis)góðra verka hjá honum. Margir gagnrýnendur voru sáttir. Burton-hipsterar og goth-arar voru vægast sagt sáttir. Hörðustu Batman-unnendur, aftur á móti, voru ekkert voðalega glaðir með það að titilhetjan fékk aldrei að sitja í sviðsljósinu sem fullmótaður karakter.
Batman Returns finnst mér reyndar vera ofsalega vanmetin mynd, en ég lít meira á hana sem abstrakt þunglyndissteypu eða þjáningargjörning, þar sem Burton smurði söguna með stórum hluta af sjálfum sér. Ekki kannski frábær Batman-mynd en stórkostlega brengluð og ógeðfelld ævintýramynd. Áhorfendur tóku illa í grimmdina og þurfti þess vegna að búa til eitthvað hressara, litríkara og teiknimyndalegra. Fenginn var þá Joel Schumacher (sem, kaldhæðnislega, hefur oft staðið sig prýðilega með myrkar sögur) og breytti hann Gotham-borginni úr svart-hvítu helvíti á jörðu í fantasíukenndan sirkus, sem minnir mann á eitthvað sem Elton John myndi dreyma um eftir skelfilega ljótt sýrutripp. Mér er svosem sama um geirvörturnar á Batman-búningnum, en blætið hjá Schumacher fyrir grískum styttum er með því asnalegasta sem Batman-vörumerkið hefur þurft að þola síðan Adam West sást lemjandi gúmmíhákarl… hangandi úr þyrlu!
Gagnrýnendur voru ekki sáttir. Burton-dýrkendur brjáluðust og þeir Batman-unnendur sem eftir stóðu voru við það að missa vitið. Dótaauglýsingarnar hans Schumachers vekja upp meiri kjánahroll heldur en líkaminn á heilbrigðum manni á að þola, en oft tekst mér að njóta þeirra óspart þegar ég er hvorki einsamall né edrú. Það þurfti ekki nema iðjuleysi hjá Schumacher og eitt austurrískt vöðvatröll til að kynna sig með orðunum „The Iceman Cometh“ og það var nóg til að myrða þessa Batman-seríu. Lá hún svo alveg steindauð, eða svo gott sem, þangað til rétta fólkið pikkaði aftur upp hetjuna, fóðraði hana rétt og sendi hana burt frá sér með hárréttum stíl og klikkaðri reiði. Ef leikstjóri Memento (einnar útpældustu og best skrifuðu noir-mynd sem ég hef séð) hefði ekki getað stuðað almennilegu lífi aftur í Myrka riddarann eftir glimmerið og vöggudauðann, þá er ólíklegt að nokkrum öðrum hefði tekist það. Þannig kýs ég allavega að líta á það því þessi skuggalega endurræsing er fullkomið dæmi um hvernig best skal rísa upp eftir ljótt og kjálkabrjótandi fall.
Batman Begins hefur sinn pakkaða skerf af litlum göllum, en hún er engu að síður virkilega, virkilega góð bíómynd. Dimm, stórskemmtileg afþreying og bara almennt metnaðarfull og unnin af mikilli umhyggju fyrir efninu, sem hafði aldrei verið gert áður. Varðandi samtöl, þemur og frásögn er handritið vel skrifað, þó það glími við ýmsar hraðahindranir í exposition-deildinni og er líklegast mest dregið niður út af fyrirsjáanlegri og hefðbundinni uppbyggingu (eins og gengur og gerist í flestum upphafssögum). Einnig er Holmes alveg steindauð þegar kemur að því að setja einhvern þunga á bakvið orðin sín, sem sést best þegar hún leikur á móti Bale, sem er aldrei ósannfærandi. Karakterinn hennar er heldur ekkert ógurlega athyglisverður og skortir mikla kemistríu í mikilvægum senum, þökk sé henni. Röddin í Blökunni getur líka verið svolítið truflandi og óviljandi kómísk þegar hún er borin saman við eðlilegu röddina hans Bale. Ég verð að standa við það að Michael Keaton var með passlegustu röddina í þunga leðurbúningnum, af þeim leikurum sem hafa smeygt sér í hann.
Andrúmsloftið er eins og heil aukapersóna í myndinni og er notkunin á dökkum litum, skugga og þurrum tónum ofsalega sterk. Nolan veit hvert skal beina vélinni og leikstýrir senum þrusuvel, þrátt fyrir flötu taktana í Holmes, og gætir þess alltaf að rýma fyrir skilaboðum handa þeim sem njóta þess að lesa á milli línanna. Nolan stendur sig einnig skrambi vel með stóru hasarsenurnar, að minnsta kosti miðað við þá litlu reynslu sem hann hafði á þessum tímapunkti. Stundum klippir hann mjög ört á milli ramma, en það eru mistök sem hægt er að fyrirgefa, en aðallega vegna þess að bestu senurnar í myndinni eru oftar en ekki í rólegri kantinum. Ofbeldið stendur þó fyrir sínu með hjálp frá öllu húllumhæinu sem sagan býður upp á og ekki síst epísku tónlistinni frá Hans Zimmer og James Newton Howard (tónlistin er greinilega svo góð að það þarf tvo reynda músíkmenn til að semja hana). Aukastig fær leikstjórinn fyrir að treysta eins lítið og hann getur á tölvubrellur og meira á praktískan (gott orð) hasar, módel og meðlæti. Nolan hefur útskrifast úr gamla skólanum með háa einkunn sé ég.
Batman Begins gerir ekki allt rétt, en nógu mikið til að eiga skilið að vera kölluð ein best heppnaða myndasögumynd sem hefur ratað á hvíta tjaldið. Hún tekur orð eins og „gritty,“ snjöll, spennandi og einbeitt alveg í nösina og kastar þvagi á upprunalegu Burton-myndina sem og þessar tvær trúðasýningar sem Schumacher sá um. Bókað mál!
(8/10)