Sumar myndir verða sífellt betri með hverju aukalegu áhorfi. Kannski vegna þess að þær eru samsettar eins og púsluspil, kannski af því þær eru troðnar af smáatriðum í bakgrunninum, eða kannski vegna þess að stílbragur og frásagnarmáti leikstjórans gerir manni erfitt að greina allt nákvæmlega sem heild við fyrsta áhorf. Solaris er samsett af öllum þessum einkennum sem gera hana bæði ákaflega gefandi við frekari áhorf og frekar frústerandi í fyrsta sinn sem maður sér hana, enda mynd sem flýtir sér hægt.
Ég kláraði myndina ekki í heild sinni í fyrsta sinn sem ég sá hana og náði einungis upp að titilkortinu fyrir seinni hlutann. Það þarf nefnilega virkilega að undirbúa sig andlega fyrir kvikmyndir eins og Solaris ef þú ert ekki að sjá hana í bíóhúsi- hún er þung, heimspekileg, löng, hægbrennandi, djúplega persónuleg fyrir leikstjórann, og ansi niðurdrepandi. En þetta er réttlætanlegt ef þú sérð myndina oftar en einu sinni.
Andrey Tarkovskiy, leikstjóri myndarinnar, sagði sjálfur á sínum tíma að myndirnar hans væru nauðsynlegt að sjá margsinnis og Solaris er mjög gott og gefandi dæmi um það þó ég þurfti hjálp í formi commentary hljóðrásra í seinna skiptið til að skilja hana nógu mikið til að njóta hennar betur. Smáatriðin í myndinni eru mjög mikilvæg og auðvelt að láta þau fram hjá sér fara, en glöggir áhorfendur (semsagt, ekki ég) græða þá mest á fyrsta áhorfinu og fá mun heilsteyptari sögu úr þessum rúmum 167 mínútum.
Mér fannst fyrsta áhorfið pínlega langdregið þó myndin var gullfallega að sjá og jafnvel dáleiðandi á köflum. En þú þarft að fylgjast MJÖG grannt með hverju einasta skoti þar sem uppsetning og lengd þeirra eru ólík því sem við erum vön. Maður á nefnilega að upplifa hverja senu í gegnum aðalpersónuna, en þar sem allt heila klabbið er mjög enigmatískt og sjónrænt þá er ómögulegt að ná alltaf sömu upplýsingum og staðgengill okkar nema þú sért einhvers konar undrabarn.
Leikhópurinn er gífurlega góður og þá sérstaklega aðalleikarinn Donatas Banionis sem neglir hlutverkið algjörlega þó hann bætir litlu við persónuna sem ekki er að finna í handritinu eða leikstjórninni. Sú sem skarar mest fram úr þó er hún Natalya Bondarchuk sem virkar bæði fullkominn í hlutverkið sitt og óvæntari en Donatas, sem hæfir persónu hennar frekar þegar á söguna er litið.
Skemmtilegur samanburður milli mynda væri Solaris og 2001, en sem dæmi má nefna að ólíkt 2001 er áhersla vísindaskáldskaps Solaris allt öðruvísi og aðdáendur Tarkovsky væru fljótir að segja þér af hverju án þess að hafa séð myndina. Báðar myndirnar eru raunsæjar og auðvelt að kaupa heim þeirra og tækni sem áhorfandi, en Solaris er klárlega heimilislegri og kunnuglegri í útliti og heimssýn. Geimstöðin virðist alltaf vera að deta í sundur, það er allt í drasli, og persónurnar eru allar að ströggla við persónulega fortíðardrauga og sálarkrísur. Hið síðnefnda er ekki beint heimilislegt, en þið fattið.
Solaris vekur upp djúplega persónubundnar spurningar og hristir í þér með því að kvelja persónur sínar á sérkennilegan máta þegar þú býst sem minnst við því. En það virkar af því þér tekst að tengjast persónunum á einhvern máta, enda allar mjög mannlegar og kunnuglegar á ólíkan máta. þetta er ekki tilgangslaust tilfinningarspil með persónurnar og þjónar angistinn bæði sögunni og persónulegum spurningum Tarkovsky, en þetta sér maður allt mun skýrar í seinni áhorfum.
Myndin er gullfalleg upplifun, bæði í anda og útliti, en mjög þung og ætlast til mikils af þér. Hún er aðeins of köld og enigmatísk fyrir venjulega skapið mitt en hún er svo vönduð og úthugsuð að ég get samt sem áður dáðst að vinnslunni hennar og mögnuðum frammistöðunum. Tala nú ekki um hvernig tókst að framleiða myndina með einungis helminginn af upphaflega fjármagni myndarinnar.
Sjáðu hana oftar en einu sinni eða slepptu því að sjá hana. En ef þú horfir á hana máttu endilega sleppa einni senu við fyrsta áhorf. Tokyo-aksturinn mun mergsjúga alla andlega athygli þína ef þú reynir að fást við hana í fyrsta sinn.
(8/10)