Ekki er útlit fyrir framhald hasarmyndarinnar A-Team ef eitthvað er að marka orð eins af aðalleikurum myndarinnar, Bradley Cooper.
Cooper mætti í netspjall við lesendur Empire kvikmyndatímaritsins í tilefni af frumsýningu nýjustu myndar hans Limitless. Einn lesandi og aðdáandi the A-Team myndarinnar, spurði Cooper hreint út um möguleikann á framhaldi The A-Team.
„Ég dýrkaði þessa mynd líka,“ svaraði Bradley. „En því miður, fyrir utan þig, nokkra vini þína og mig sjálfan, þá voru ekki nógu margir sem borguðu sig inn á myndina til að réttlæta framleiðslu á framhaldi.“
Þegar rýnt er í tölurnar þá þénaði myndin 77 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 100 milljónir annarsstaðar í heiminum. Beinn kostnaður við myndina var 110 milljónir dala, og við bætist kostnaður við markaðssetningu, sem var talverður, og fleira.

