Kvikmyndaverið Sony Pictures hefur frestað stórum hluta væntanlegra kvikmynda, en á meðal þeirra er stórmyndin Ghostbusters: Afterlife. Upphaflega stóð til að frumsýna kvikmyndina 10. júlí næstkomandi en má nú gera ráð fyrir endurræsingunni þann 5. mars 2021.
Jafnframt er búið að fresta kvikmyndunum Morbius, Peter Rabbit 2 og stríðsdramanu Greyhound með Tom Hanks. Sú síðastnefnda var áætluð næstkomandi júní en hefur nýja dagsetningin enn ekki fengist staðfest í kjölfar frestunar.
Hvort enn sé líf eftir í Draugabönum er spurning sem leikstjórinn Jason Reitman verður að svara en hann er sonur Ivans Reitman, mannsins sem færði okkur upprunalegu tvær kvikmyndirnar um Draugabanana. Gerð var tilraun til þess að endurræsa vörumerkið árið 2016 en sú tilraun stóð ekki undir væntingum aðdáenda og áhorfenda.
Ghostbusters: Afterlife tekur nýjan vinkil á hráefnið í anda Stranger Things og er gert ráð fyrir að gamli hópurinn snúi aftur að þessu sinni, fyrir utan Harold Ramis, vissulega.
Með helstu hlutverk fara Finn Wolfhard, Mckenna Grace, Carrie Coon og Paul Rudd.