Shawn Levy, leikstjóri Real Steel og The Internship, er nú á fullu að undirbúa þriðju Night At The Museum myndina, en fyrir þá sem aldrei hafa séð þá seríu fjallar hún um það þegar safngripir í náttúrugripasafni lifna við.
Aðalleikararnir, Ben Stiller og Robin Williams, eru báðir áhugasamir um framhaldið og eiga í viðræðum um að snúa aftur í þriðju myndina.
Williams lék fyrrum Bandaríkjaforsetann Teddy Rosevelt í fyrstu tveimur myndunum, Night At The Museum og Night At The Museum: Battle Of The Smithsonian. Ekki er mikið vitað um þriðju myndina, nema það eitt að næturvörðurinn Larry Daley, sem Stiller lék í fyrstu tveimur myndunum, fer nú til Lundúnaborgar – kannski bauðst honum starf í einhverju af söfnum þeirrar borgar ….
Levy vill hefja tökur í febrúar samkvæmt Empire kvikmyndaritinu, en enn er ekki vitað hvaða fleiri leikarar hyggjast snúa aftur. Ekki er ólíklegt að amk. Owen Wilson mæti aftur til leiks.
Williams lék síðast annan Bandaríkjaforseta, Dwight D. Eisenhower í The Butler og væntanlegar eru myndirnar Boulevard og Merry Friggin’ Christmas. Williams hefur einnig verið að leika í sjónvarpi í þáttunum The Crazy Ones sem eru í sýningum í Bandaríkjunumm í allan vetur.