Unnendur leikstjórans Alfonso Cuarón hafa beðið eftir vísindaskáldsögunni Gravity með mikilli eftirvæntingu. Myndin hefur lengi verið í umræðunni á meðal áhugamanna og er gríðarlega metnaðarfull og óvenjuleg mynd sem mun einkennast af löngum óslitnum tökum og einleik frá Söndru Bullock. Orðrómar segja að það séu ekki fleiri en 150 tökurammar í allri myndinni, og þar á meðal verður opnunarskotið hátt í 17 mínútur að lengd.
Gravity, sem frumsýnd verður í vetur, er víst vísindaskáldskapur fyrir lengra komna, og samkvæmt umtalinu er hún alls ekki fyrir hvern sem er. Aðstandendur myndarinnar komust að þessu þegar þeir héldu lokaða forsýningu á grófklipptri útgáfu fyrir hlutlausa áhorfendur. Gestum þótti augljóst að myndin var langt frá því að vera tilbúin, en það angraði alls ekki þá sem elskuðu myndina. Bara þá sem hötuðu hana.
Viðtökur voru rosalega skiptar, en þeir sem voru hrifnir héldu einfaldlega ekki vatni yfir myndinni. Stanley nokkur Boobrick, „njósnari“ síðunnar Aint it Cool News, sat á þessari sýningu og segir að Cuarón sé hér með kominn með mynd sem markar „næsta skrefið“ í kvikmyndagerð. Hins vegar voru ekki allir sem „föttuðu“ snilldina við þessa mynd, enda mikið gagnrýnd fyrir að vera táknræn, hæg og djúp. Þeir sem höfðu eitthvað neikvætt að segja sögðu oftast sama hlutinn: Hún er grútleiðinleg.
Smellið hér til að lesa Aint it Cool greinina.
Ætli 2012 sé „game changer“ bíóárið sem við höfum lengi beðið eftir??