Hollenska leikkonan Sylvia Kristel, sem margir hér á landi muna eftir úr hinum erótísku Emmanuelle myndum, er látin 60 ára að aldri úr krabbameini.
Kristel var fyrirsæta upprunalega en sneri sér að kvikmyndaleik á áttunda áratug síðustu aldar. Hún hafði barist við krabbamein í nokkur ár áður en hún lést. Hún lést í svefni.
Kristel sló í gegn í hlutverki Emmanuelle árið 1974, í samnefndri mynd sem leikstýrt var af Frakkanum Just Jaeckin, en myndin fjallaði um kynferðisleg ævintýri manns og fallegrar ungrar eiginkonu hans, leikin af Kristel, í Taílandi.
Í kjölfar velgengni fyrstu myndarinnar fylgdu nokkrar framhaldsmyndir auk þess sem hún fór til Hollywood og lék þar í myndum eins og Private Lessons árið 1981.
Stórstjörnulífið í Hollywood sogaði hana til sín, og hún sökk inn í heim áfengis og eiturlyfja. „Ég vildi að ég hefði sleppt þeim kafla í lífi mínu, sagði Kristel í viðtali árið 2005 við hollenska dagblaðið De Volkkrant.“
Umboðsmaður hennar hefur lýst Kristel sem einni stærstu kvikmyndastjörnu Hollands, en hún lék í meira en 50 myndum.
Margar þeirra voru með erótískum undirtóni, eins og til dæmis kvikmyndagerð af sögu D.H. Lawrence Lady Chatterley’s Lover og síðan Mata Hari, fjórum árum síðar.
Sylvia Kristel skilur eftir sig sambýlismanninn Peter Brul og soninn Arthur Kristel sem hún átti með belgíska rithöfundinum Hugo Claus.
Hér má lesa meira um andlát Kristel.