Sum ykkar muna kannski eftir að árið 2006 hélt BT leik tengdan seinni Pirates of the Caribbean myndinni þar sem Íslendingum var falið að finna gám fullan af ýmsum stórvörum frá fyrirtækinu. Það var ekkert miðað við metnaðarfulla verkefnið sem einn af umsjónarmönnum Kvikmyndir.is (og kvikmyndagerðarmaðurinn) Eysteinn Guðni Guðnason hefur lagt í, en það er ein skemmtilegasta fjársjóðsleit Íslands.
Eysteinn þekkir land sitt og kvikmyndasögu betur en flestir og hann hefur meðal annars ferðast um landið vegna annarra verkefna, eins og þegar hann framleiddi framhald af vegamynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, Hringurinn– nema að framhaldið, Hringurinn II, var tekin upp báðum megin bílsins og sýnd á tveim veggjum til að veita áhorfendum meira fyllandi upplifun af heildarkeyrslu þjóðvegarins.
Fjarsjóðsleit Eysteins er sprottin af Geocaching-samfélaginu þar sem markmiðið er að fela og finna fjársjóð með því að fylgja leiðbeiningum verkefnisins. Hægt er að nálgast svæðin sem kassarnir eru faldir á á http://kvikmyndir.dv.is/geotrail/ en eftir að þú finnur þér svæði þá hefst leitin. Í stað þess að leita að „x-inu“ á fjársjóðskorti þá færðu GPS hnit sem vísa þér á nákvæma staðsetningu kassans, en nú eru flestir með GPS tæki í snjallsímanum sínum.
Í földu fjársjóðsboxunum er að finna bók þar sem finnendur skrá nafn sitt og skrifa
síðan skilaboð til annarra finnenda. Þar eru gjarnan upplýsingar um staðsetninguna, s.s.
ef hún er söguleg eða þekkt fyrir eitthvað sérstakt. Ein af reglum leiksins er einnig að
finnendur skrifi um reynslu sína á síðuna www.geocaching.com. Einnig eru yfirleitt einhverjir minjagripir í boxunum sem finnendur mega taka með sér en reglan er sú að sá sem tekur hlut úr boxi verður að setja annan í staðinn, sem hefur sama eða meira
virði. Á Íslandi leynast nú yfir 300 fjársjóðsbox og þeim fjölgar stöðugt.
„Geocache er heilbrigt fjölskylduáhugamál sem hvetur til útivistar og dæmi eru um að fólk ferðist heimshluta á milli í fjársjóðsleit: Einnig er samfélag fjársjóðsleitenda á www.geocaching.com sterkt og tilvalin leið til að kynnast fólki með lík áhugamál,“ segir Eysteinn Guðni.
Eysteinn hefur lengi séð um skráningu og uppfærslur á íslenskum kvikmyndum fyrir kvikmyndir.is og kortlagði m.a. fjölmarga tökustaði á Íslandi, hvort sem þeir voru fyrir innlendar eða erlendar kvikmyndir. Þannig að þessi fjarsjóðsleit virkar eins og kortlagningin tekin á hærra og hressara plan.
Í vetur hefur Eysteinn Guðni, í samstarfi við Aura – Menningarstjórnun og ráðgjöf, unnið að fjármögnun fyrir verkefnið. Viðtökur voru góðar og fékk verkefnið styrki frá fjórum menningarsjóðum; Menningarsjóði Vestfjarða, – Norðurlandi Vestra, – Austfjarða og Hafnarfjarðar. Í maí var búið að undirbúa boxin og lagði Eysteinn Guðni af stað til að fela þau. Með honum fór Davíð Þór Þorsteinsson, aðstoðarmaður. Hringurinn var farinn rangsælis (fyrst austur) og var því fyrsta boxið sem var falið á Drangshlíð þar sem Hrafninn Flýgur var meðal annars tekin upp. Þaðan var haldið á Austfirði, svo Norðurland, Vestfirði og endað á Reykjanesskaganum. Búið var að fá leyfi fyrir boxunum á þeim stöðum sem voru á einkalóð og voru allir mjög samstarfsfúsir.
Búið er að setja upp 14 box og eitt til viðbótar bætist við í ágúst nk. Boxin og
staðsetning þeirra, eru mjög fjölbreytt. Að sumum er erfitt að komast, og erfitt að
finna þau, sum eru stór og önnur smá. Sum hafa þrautir, sum eru í þéttbýli og
önnur í stórbrotinni náttúru.
“Boxið fyrir Nóa albinóa er falið á Þingeyri. Fyrst þarf maður að fara í kaffihúsið
Simbahöllina sem margir þekkja sem bókabúðina í Nóa albínóa. Þar er rubik’s cube
sem maður þarf að leysa til að fá hnitin að boxinu, en glöggir lesendur muna eftir að Nói
leysti einmitt rubik’s cube í myndinni,” segir Eysteinn Guðni. Í Hafnarfirði er svokallað „multi-cache“, en þar er að finna vísbendingar á frægum tökustöðum sem leiða mann loks að boxinu. Þetta eru Astrópía, Ævintýri Pappírs Pésa, Hrafnar, sóleyjar og myrra, Mávahlátur og svo loka boxið við tökustað á Blóðböndum.
“Ísland hefur verið staðgengill fyrir marga mismunandi staði, Japan í Flags of Our Fathers, Tíbet í Batman Begins og núna nýjast upphaf mannkynssögunnar í Prometheus. Í raunveruleikanum eru þetta Sandvík, Svínafellsjökull og Dettifoss, en það er box falið á öllum þessum stöðum. Auk þess er box falið við Jökulsárlón þar sem Die Another Day var tekin upp, en í henni var ekki verið að ljúga til um staðsetningu, því Bond fer til Íslands í þeirri mynd.”
Listi yfir fjarsjóðina
Suðurland
• Hrafninn flýgur – regular – Drangshlíð (við þjóðveginn)
• Batman Begins – regular – Svínafellsjökull (30 mínútna labb frá þjóðveginum)
• Die Another Day – regular – Jökulsárlón (við þjóðveginn)
Austfirðir
• Hafið – puzzle – Á Neskaupsstað
• Kaldaljós – regular – 5 mínútna akstur frá Seyðisfirði
• Secret Life of Walter Mitty – Væntanleg í ágúst (Seyðisfirði)
Norðurland
• Prometheus – regular – Dettifoss
• Bíódagar – regular – Höfði í Skagafirði
• Rokland – regular – Grettisbæli (Drangey)
• Agnes – puzzle – Þingeyrarkirkja (5 mínútna akstur frá þjóðveginum)
Vestfirðir
• Börn náttúrunnar – regular – Staðarkirkja í Aðalvík (Hornströndum)
• Nói albínói – puzzle – Þingeyri
• Á annan veg – regluar – 10 mínútna akstur frá Patreksfirði Suð-Vesturland
• Astrópía – Ævintýri Pappírs Pésa – Mávahlátur – Hrafnar, sóleyjar og myrra –
• Blóðbönd – multi – Miðbæ Hafnarfjarðar
• Flags of Our Fathers – regular – Sandvík (30 mínútna labb)
Það eru Kvikmyndir.is og Bílaleigan Kúkú Campers sem eru samstarfsaðilar Eysteins í fjarsjóðsuppsetningunni, en Bílaleigan Kúkú campers aðstoðaði við að útvega húsbíl sem var ómetanlegur förunautur í ferðinni. Kúkú Campers er ný bílaleiga sem leigir ódýra bíla sem eru með dýnu fyrir tvo afturí. Þetta fyrirkomulag gerir manni kleift að keyra um landið og stoppa hvar sem er til að gista án þess að fara út í mikinn kostnað við stóran húsbíl eða fyrirhöfnina við að tjalda.
Hvað segið þið, lesendur góðir, á ekki að skella sér í fjársjóðsleit í næstu útileigu? Undirritaður veit allavega hvað hann ætlar að gera í næstu viku.