Allir eiga farsíma í dag. Fyrir mörgum er tilhugsunin um að vera ekki með símann á sér, hræðileg. En hvað ef eitthvað skelfilegt lúrði í farsímamerkinu, sem gæti haft ófyrirséðar afleiðingar? Um þetta fjallar skáldsaga hrollvekjumeistarans Stephen King frá árinu 2006, Cell, og nú er á leiðinni kvikmynd upp úr bókinni með þeim John Cusack og Samuel L. Jackson í aðalhlutverkum.
Fyrsta stiklan úr myndinni var að koma út, kíktu á hana hér fyrir neðan:
Myndin fjallar um Clay Riddell, sem Cusack leikur. Hann er staddur í flugstöðinni í Boston á leið heim til fjölskyldu sinnar, þegar merki sem sent er í farsíma, breytir hundruðum símnotenda í tryllta morðingja, ekki ósvipaða uppvakningum.
Clay, sem virðist hafa sloppið við þessa sýki, þarf að berjast fyrir lífi sínu og fer að vinna með Tom McCourt, sem Jackson leikur, til að reyna að komast aftur til fyrrverandi eiginkonu sinnar og sonar. Á leðinni þá hitta þeir Alice Maxwell og komast að nýjum upplýsingum um þá sem sýkst hafa – en þeir virðast vera að breytast í nýja gerð af mönnum.
Cusack og Jackson vinna nú saman á ný í mynd eftir sögu Kings, en síðasta King mynd þeirra var 1408.
Myndin er búin að vera í vinnslu síðan bókin kom á markað á sínum tíma, en upphaflega ætlaði Eli Roth að leikstýra, en hætti við. Tod Williams tók við leikstjórakeflinu og King sjálfur skrifar handritið.
Tökur fóru fram árið 2014, en myndin hefur beðið tilbúin síðan þá.
Myndin verður frumsýnd á VOD í Bandaríkjunum í júní nk. en óvíst er með sýningar hér á landi.