Allir eiga sér sínar uppáhalds kvikmyndir úr barnæsku. Þetta eru myndir sem á sínum tíma og jafnvel enn þann dag í dag var hægt var að horfa á aftur og aftur án þess að fá nóg af. Undirrituðum varð hugsað til þess hverjar voru uppáhalds myndirnar hans úr barnæsku og ákvað hann því að taka saman fimm þeirra. Hér tek ég ekki endilega tillit til gæða myndanna og því er þetta listi yfir uppáhalds myndirnar mínar úr æsku – ekki endilega þær bestu út frá kvikmyndafræðilegu sjónarmiði (ef þið skiljið hvað ég á við).
5.Tommy Boy
Ég gat horft endalaust á myndir með Chris Farley á sínum tíma og ég neitaði því lengi vel að viðurkenna að hann hefði dáið úr ofneyslu eiturlyfja í stað offitu (sem mér fannst meika meira sens sem krakki). Að mínu mati er þetta besta myndin á þessum stutta kvikmyndaferli hans.
4.Babe
Ég var 8 ára þegar ég sá þetta bleika svín á hvíta tjaldinu í fyrsta sinn og það var ekki aftur snúið. Get ekki tekið James Cromwell alvarlega eftir að hafa horft á hann í svínaleik í 90 mín. Snilld!
3.Lion King
Ég hef aldrei verið mikið Disney nörd en Lion King er vafalaust besta teiknimynd sem ég hef séð. Það þarf ekki að útskýra nánar af hverju hún á heima á þessum lista, en henni tekst að troða bókstaflega öllum tilfinningaskalanum í 89 mínútna pakka. Mér líður hálf óþægilega þegar ég horfi á ensku útgáfuna af Lion King og vil ég því meina að íslenska talsetningin hafi verið að gera eitthvað rétt í þetta skiptið.
2.Jurassic Park
Ég stalst til að horfa á Jurassic Park aðeins 7 ára gamall og ég gat ekki sofið í nokkrar vikur á eftir. Ég átti heima á Siglufirði á þessum tíma og man að ég var settur á biðlista eftir myndinni í marga daga þegar hún kom á leigurnar – svo mikil var aðsóknin! (í þá daga var ekki mikið mark tekið á aldurstakmörkum, ekki nema ég hafi verið svona rosalega þroskaður í útliti). Ég man þegar ég hélt á VHS hulstrinu sem var eins og steingervingur í laginu eins og það hafi verið í gær! Ég hef ekki enn getað fyrirgefið ösnunum sem ákváðu eyðileggja æskuminningar mínar og gefa út Jurassic Park 2, 3 og 4 (sem á að koma út 2014, ég er búinn að ákveða að gefa henni ekki séns).
1.Die Hard
Ég var greinilega allur í bönnuðu myndunum sem barn, en Bruce Willis hefur aldrei verið jafn svalur og í þessum þríleik. Hér á ég við Die Hard franchise-ið, en ég hef eflaust horft á Die Hard 3 yfir 20 sinnum og tel ég sjálfan mig hafa toppað Björn Bjarnason í þeim málum.
Aðrar myndir voru sterkir kandídatar á listann, líkt og Star Wars myndirnar, Home Alone, Iron Giant, Happy Gilmore, Big, Mars Attack, Mary Poppins, Toy Story, Ghostbusters og fleiri. Þær komast kannski á aðra lista – en ekki minn! Hverjar eru þínar uppáhalds myndir úr barnæsku ?