Fimm bíómyndir eru væntanlegar úr herbúðum austurríska vöðvatröllsins Arnold Schwarzenegger , en Arnold hefur lítið komið við sögu kvikmynda á undanförnum árum, eða allt frá því hann var kosinn ríkisstjóri Kaliforníu. En nú er Arnold kominn aftur.
Fyrst ber að nefna The Last Stand sem er langt komin og verður frumsýnd í janúar. Í henni leikur Arnold lögreglumann sem fer á eftir mexíkóskum glæpamönnum sem eru á flótta undan hinum langa armi laganna.
Eddie Murphy verður þriðji bróðirinn
Sú mynd sem hefur þó vakið hvað mesta athygli af væntanlegum myndum hins fyrrverandi ríkisstjóra er Ivan Reitman-myndin Triplets, en hún er sjálfstætt framhald myndarinnar Twins frá árinu 1988 þar sem þeir Arnold og
Danny DeVito léku tvíbura.
Í Triplets kemur í ljós að tvíburarnir eru í raun þríburar og að þriðji bróðirinn er
ekki bara ólíkur bræðrum sínum í háttum heldur er húðlitur hans allt annar, þ.e. svartur. Sá sem kemur til með að leika þriðja bróðurinn er Eddie Murphy og þótt það sé ómögulegt að gera sér í hugarlund hvernig þríburar geta verið jafn ólíkir og þessir þrír verður gaman að sjá hvernig til tekst við gerð myndarinnar.
Skoðaðu meira um Arnold Schwarzenegger í Myndum mánaðarins.