Dansk/íslenska kvikmyndin Vetrarbræður, eftir handritshöfundinn og leikstjórann Hlyn Pálmason, vann til fimm alþjóðlegra verðlauna nú um nýliðna helgi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá framleiðanda myndarinnar.
Í tilkynningunni segir að myndin fari þannig af stað „með látum inn í hátíðaferðalagið sem er rétt að hefjast.“
Myndin var heimsfrumsýnd sem opnunarmynd aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Locarno í Sviss nú í byrjun mánaðar. Í tilkynningunni er sagt að myndin hafi verið ein af umtöluðustu myndum hátíðarinnar, og vísar þar í kvikmyndamiðlana Cineuropa og Variety. Í beinu framhaldi fékk hún pólska frumsýningu á kvikmyndahátíðinni New Horizons.
Verðlaunaafhending beggja hátíða var núna um helgina og hlaut myndin fern verðlaun í Sviss og ein verðlaun í Póllandi. Myndin verður frumsýnd á Íslandi í október. Í Locarno var aðalleikara myndarinnar, Elliott Crosset Hove, veitt Bestu Leikara verðlaunin en myndin hlaut einnig dreifingarverðlaun Europa Cinemas, aðalverðlaun ungmennadómnefndar og sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd kirkjunnar. Að lokum hlaut myndin svo sérstök dómnefndarverðlaun Alþjóðasamtaka gagnrýnenda, FIPRESCI, á New Horizons hátíðinni í Wroclaw í Póllandi.