Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í sjöunda sinn helgina 17. – 19. október á Grundarfirði. Dagskrá hátíðinnar var kynnt í dag og má þar sjá fjölbreytt úrval íslenskra og erlendra stuttmyndina. Alls verða 13 íslenskar stuttmyndir sýndar á hátíðinni og má þar helst nefna myndirnar Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarsson og Leitin að Livingstone eftir Veru Sölvadóttur.
Hjónabandssæla hlaut fyrstu verðlaun í stuttmyndaflokki á Montreal World Film Festival sem lauk fyrir fáeinum dögum. Í myndinni leika Sigurður Skúlason og Theódór Júlíusson tvo karla á sjötugsaldri sem deila lífi sínu með hvorum öðrum í blíðu og stríðu. Ævilöng vinátta þeirra á þó undir högg að sækja þegar aðlaðandi kona á þeirra aldri birtist óvænt í heita pottinum þeirra.
Damon Younger og Sveinn Geirsson fara með aðalhlutverk í Leitin að Livingstone, en í myndinni leika þeir tóbaksfíkla á ferð um landið í örvæntingarfullri leit þeirra að tóbaki, sem þeir trúa stöðugt að sé handan við hornið.
Auk íslenskra stuttmyndina verða 35 erlendar stuttmyndir og 12 íslensk tónlistarmyndbönd. Meðal þeirra sem sýna myndbönd eru hljómsveitirnar Mammút, Úlfur úlfur og Fm Belfast.
Hér má sjá þær myndir sem verða sýndar á hátíðinni.


