Það er aldeilis flóð af tíðindum í þessari viku!
– Sony hefur staðfest að nýja Spider-Man myndin (leikstýrð af Marc Webb, ekki Sam Raimi) verði í 3-D. Hljómar skemmtilega fyrir utan það að myndin mun mestmegnis fjalla um unglingsárin hjá Peter Parker, miklu meira en 2002-myndin gerði, eða svo er sagt. Ekki alveg mest spennandi atburðarás í heimi til að upplifa í þrívídd. Myndin verður engu að síður frumsýnd þann 3. júlí 2012.
– MTV settist niður með handritshöfundum Zombieland (Paul Wernick & Rhett Reese) til að ræða við þá um framhaldsmyndina (Zombieworld?). Þeir sögðust vera komnir með fullt af hugmyndum og planað er t.d. að bæta við fleiri aðalkarakterum, sem slást í för með fjórmenningunum. Meira að segja kemur til greina að bæta við harðri kvenpersónu sem Talahassee (Woody Harrelson) verður hrifinn af.
– Í Kaliforníu fyrir stuttu var haldin lokuð prufusýning á The Expendables. Eftir sýninguna voru nokkrir aðilar sem ákváðu að rýna í myndina og sendu síðan umfjallanirnar sínar inn á AintitCoolNews vefinn. Dómarnir voru misjafnir. Nokkrir elskuðu myndina á meðan einn var alls ekki sáttur. Sylvester Stallone sjálfur las þessar umfjallanir og hafði beint samband við Harry Knowles til að ræða aðeins um neikvæða dóminn og ókláruðu útgáfu myndarinnar. Smellið hér og lesið söguna. Mjög athyglisverð.
– Leikarinn Jason Segel (How I Met Your Mother, Forgetting Sarah Marshall) hefur margoft sagt að draumurinn hans er að gera glænýja Prúðuleikaramynd. Núna er sagt að fullbúið handrit sé tilbúið (sem Segel skrifaði ásamt leikstjóra Marshall, Nicholas Stoller). Ekki nóg með það, heldur ber myndin hið metnaðarfulla heiti The Greatest Muppet Movie of All Time.
– Tom Cruise er víst vel til í enn eina Mission: Impossible-myndina. JJ Abrams (sem leikstýrði M:I-3, ásamt Star Trek) mun framleiða myndina með honum en ekki leikstýra þar sem hann er á fullu að vinna í Star Trek 2. Ekki er vitað hvort að Ethan Hunt verði áfram giftur Michelle Monaghan persónunni eða hvort stúdíóin ákveði að fá glænýja gellu.
– Búið er að gefa í skyn að Penélope Cruz gæti leikið eitt aðalhlutverkið í fjórðu Pirates of the Caribbean-myndinni. Cruz fékk nýlega Óskarstilnefningu fyrir hlutverk sitt í myndinni Nine, sem Rob Marshall leikstýrði. Marshall er einmitt leikstjóri fjórðu Pirates-myndarinnar. Johnny Depp snýr annars pottþétt aftur, þrátt fyrir að hann hafi sagt á tímabili að hann væri óviss.
– Sagt er að Myndir Mánaðarins (nýjasti samstarfsaðili Kvikmyndir.is) muni bjóða upp á eitthvað glænýtt í næsta blaði. Eitthvað sem tímaritið hefur aldrei boðið upp á áður. Bíðum öll spennt.
– Undirritaður tók fyrir stuttu skemmtilegt símaviðtal við leikarann Christopher Mintz-Plasse (McLovin!). Viðtalið verður birt í kringum frumsýningu myndarinnar Kick-Ass, sem hann leikur í.
– Að lokum ætla ég að benda á glænýjan „teaser“ fyrir Toy Story 3. Hún verður frumsýnd þann 18. júní í Bandaríkjunum en í lok ágúst (*tár) hér á Íslandi.

