Kvikmyndin Cannibal Holocaust er næst á dagskrá Svartra sunnudaga, sem liður í Forboðnum febrúar, í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík, en í tilkynningu frá Bíó Paradís segir að Forboðinn febrúar hafi „heldur betur slegið í gegn“.
Cannibal Holocaust er n.k. grundvallarmynd bannlistans sem Kvikmyndaeftirlit Ríkisins kom á í upphafi níunda áratugsins.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Myndin segir frá leiðangri nokkurra kvikmyndagerðamanna til Suður-Ameríku þar sem hugmyndin er að gera heimildamynd um ættbálka í frumskóginum. Þegar kvikmyndagerðamennirnir skila sér ekki heim er farið að grennslast fyrir um þá og ekkert finnst nema filmubútar úr leiðangrinum. Þessar filmur hafa að geyma vægast sagt óhugnanlega hluti.
Svartir sunnudagar láta ávallt sérhanna plakat fyrir hverja mynd sem sýnd er í klúbbnum og höfundur plakatsins fyrir Cannibal Holocaust er Baldur Björnsson.
Sjáðu plakatið hér að neðan:
Umsögn af vef Bíó Paradísar: „Myndin var bönnuð víða um heim, bæði vegna þess að hún þótti ansi ofbeldisfull, en þó aðallega vegna þess orðróms sem spurðist út um að kona hefði verið myrt í raun og veru fyrir framan myndavélarnar. Eftir rannsókn kom þó í ljós að engin fótur var fyrir því en leikstjórinn, ítalinn Ruggero Deodato, var nokkuð upp með sér að hinar einföldu brellur hefðu þótt svona raunsæislegar. Þessar brellur fólust einna helst í því að hafa myndavélina sem mest á hreyfingu eins og um fréttamynd væri að ræða.
Með Cannibal Holocaust gerðist Ruggero Deodato brautryðjandi innan ákveðins kima hryllingsmyndalistarinnar. Myndir eins og Blair Witch Project og The Last Exorcism eru gerðar undir greinilegum áhrifum frá Cannibal Holocaust og hafa margir af helstu meisturum mært hana, m.a. má nefna Sergio Leone sem skrifaði Deodato í bréfi “Kæri Ruggero. Hvílík mynd! Miðjukaflinn er meistarasmíð í kvikmyndalegu raunsæi og öll myndin er svo raunveruleg að ég er hræddur um að þú sért að fara að koma þér í klandur útum allan heim”. Og hann reyndist sannspár.“
Aðeins verður um eina sýningu á myndinni að ræða, kl. 20 nk. sunnudagskvöld í Bíó Paradís.