Ef þú gætir ferðast hvert sem er, fram eða aftur í tíma, – hvert myndirðu fara? Myndirðu reyna að hafa áhrif á fortíðina eða viltu kannski skoða framtíðina? Viltu eignast gæludýr sem er grameðla, reyna að bjarga einhverjum úr fortíðinni eða skjótast út í geim eftir hundrað ár? Valið er þitt!
Þetta segir í innihaldslýsingunni á sýningunni Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson, rithöfund. Leikritið var frumsýnt í Kúlunni í síðasta mánuði. Nýja sýningin er enn lengri og viðameiri en sú fyrri, og nú er haldið af stað í æsispennandi ferð um rúm og tíma. En þess má geta að Leiksýningin Þitt eigið leikrit I – Goðsaga var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins 2019.
Kvikmyndir.is náði stuttu tali af Ævari, sem samkvæmt heimildum er ekki aðeins mikil áhugamanneskja um ævintýri og tímaflakk, heldur er höfundurinn gríðarmikill bíófíkill.
Þegar Ævar er spurður hvaða kvikmyndir koma upp í hugann þegar hugsað er um tímaflakk eða söguþræði sem innihalda slíkt, var Ævar ekki lengi að svara. Þessar urðu fyrir valinu.
Ævar fær orðið:
Back to the Future-þrennan (1985-1990)
Bestu, skemmtilegustu og fyndnustu tímaferðalagsmyndir sem gerðar hafa verið. Það þarf í raun ekkert að rökstyðja það; gerasamlega frábærar.
Looper (2012)
Áhugaverð taka á tímaferðalagsformúluna. Hér er einstaklega vel leikið sér með orsök og afleiðingu. Það er líka afar hressandi að fá tvo leikara til að leika sömu persónuna, í stað þess að reyna að yngja herra Willis með tækni sem hefði vafalaust elst mjög illa.
12 Monkeys (1996)
Súr og þung framtíðarsýn eins og Gilliam einum er lagið. Brad Pitt sjaldan verið betri og yndislega skemmtilega leikið sér með samspil upphafs og loka myndarinnar (sem hafði reyndar bein áhrif á leikritið).
Primer (2004)
Líklega flóknasta mynd sem þú munt nokkurn tímann sjá um tímaferðalög, en mikið óskaplega situr hún í manni. Virkilega vel gerð.
Terminator 2: Judgment Day (1991)
Cameron gerir hér það sem hann gerir best: Framhald sem tekur U-beygju og stækkar heiminn margfalt. Í sumum tímaferðalögum fer allt eins og það á að fara og ekki er hægt að breyta neinu; hér er svo sannarlega annað uppi á teningnum.
Sjáðu líka:
X-men: Days of Future Past, Groundhog Day, Bill & Ted og About Time