Eldarnir ný íslensk kvikmynd í bíó

Þann 11. september næstkomandi frumsýnir Sena kvikmyndina Eldarnir (The Fires á IMDb), nýjan rómantískan spennutrylli sem byggður er á metsölubók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eldarnir – Ástin og aðrar hamfarir. Bókin vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2020 og nú hefur sagan verið flutt á hvíta tjaldið í leikstjórn Uglu Hauksdóttur.

Ástin sem náttúruhamfarir

Sögusviðið er stórbrotið. Anna Arnardóttir, eldfjallafræðingur og forstöðumaður Jarðvísindastofnunar, stendur frammi fyrir tveimur hamförum samtímis. Annars vegar vofir yfir gríðarlegt eldgos á Reykjanesskaga sem gæti lagt höfuðborgarsvæðið í hættu, og hins vegar ógnar ástarsamband hjónabandi hennar og einkalífi.

Sterkt leikaralið

Vigdís Hrefna Pálsdóttir með hlutverk Önnu, en Ingvar E. Sigurðsson, einn ástsælasti leikari Íslands, leikur einnig stórt hlutverk í myndinni sem og hinn þekkti danski leikari Pilou Asbæk.

Með önnur hlutverk fara Jói Jóhannsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, María Heba Þorkelsdóttir og Þór Tulinius. Saman mynda þau sterkan kjarna sögunnar og bera fram dramatíkina sem felst bæði í eldfjallaógninni og persónulegum átökum.

Tökur á Reykjanesi

Kvikmyndin var tekin upp á stórbrotnum og kunnuglegum stöðum á Reykjanesskaga, þar á meðal við Reykjanesvita, Kleifarvatn og Fagradalsfjall. Hluti takanna fór fram innanhúss í Lögbergi Háskóla Íslands. Þannig er náttúruhamfarasaga myndarinnar fléttuð saman við landslag sem áhorfendur þekkja bæði úr fréttum og eigin upplifun.

Ný rödd í íslenskri kvikmyndagerð

Leikstjórinn Ugla Hauksdóttir stígur hér sín fyrstu skref í kvikmyndaleikstjórn í fullri lengd, eftir að hafa áður leikstýrt þáttum í sjónvarpsseríum bæði hér heima og erlendis. Hún skrifaði einnig handritið ásamt Sigríði Hagalín og Markusi Englmair.

Alþjóðleg dreifing

Eldarnir er framleiddir af Grímari Jónssyni (Netop Films) og Klaudiu Śmieja-Rostworowska (Madants), með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Alþjóðlega dreifingarfyrirtækið Bankside Films sér um sölu myndarinnar erlendis og tryggir þannig að íslensk eldfjallasaga geti náð til áhorfenda langt út fyrir landsteinana.

Eldarnir var frumsýnd með pompi og prakt 3. september sl. á hátíðarfrumsýningu í Smárabíói og fer í almennar sýningar þann 11. september næstkomandi.