Það gengur mikið á í lokaþætti þriðju Iceguys sjónvarpsþáttaraðarinnar vinsælu á Sjónvarpi Símans. Dramatíkin er blússandi og rómantík í loftinu milli bræðranna Jóns Jónssonar og Friðriks Dórs Jónssonar í hlutverkum sínum í kvikmyndinni sem strákasveitin er að búa til í þáttunum.
Þá brenna miklir eldar allt í kring.
Kvikmyndir.is birtir atriði úr þættinum hér fyrir neðan.

Eins og aðdáendur Iceguys vita þá landa meðlimir bandsins stórum kvikmyndasamningi í seríunni en ekki er allt sem sýnist og áskoranirnar allt aðrar en búist var við í upphafi.
Leikstjóra kvikmyndarinnar leikur Gísli Örn Garðarson
Þættirnir eru úr smiðju Atlavíkur sem þeir Allan Sigurðsson, Hannes Þór Arason og Hannes Þór Halldórsson eiga, en þeir leikstýra einnig þáttunum.
Handrit skrifar uppistandarinn Sólmundur Hólm Sólmundsson, eða Sóli Hólm.
Meðlimir Iceguys eru tónlistarmennirnir Aron Can, Herra Hnetusmjör, bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson, og fyrrum atvinnumaðurinn í fótbolta, Rúrik Gíslason.
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Orri Ásgeirsson semur og tekur upp flest lög hljómsveitarinnar.

Þáttaröðin er mögulega sú síðasta að því er fram hefur komið í fjölmiðlum en seríurnar hafa notið gífurlegra vinsælda.
Engin þáttaröð hefur slegið áhorfsmet jafn oft og IceGuys og unnu Síminn, Atlavík og IceGuys til dæmis til verðlauna á markaðsverðlaunahátíð Ímark fyrir árangursríkustu herferð ársins, Áruna.
Sjáðu atriðið hér fyrir neðan:

