Framleiðsla er hafin á kvikmyndinni Napóleonskjölin 2: Tár úlfsins, sem er beint framhald af Napóleonskjölunum frá árinu 2023. Fyrri myndin byggði á samnefndri metsölubók Arnaldar Indriðasonar og naut mikilla vinsælda, bæði hérlendis og erlendis, auk þess sem hún seldist til yfir fjörutíu landa.
[movieid=14384]
Í Tárum úlfsins snúa þau Vivian Ólafsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Jack Fox aftur í lykilhlutverkum. Þá bætist við breski leikarinn Tom Weston-Jones, þekktur fyrir hlutverk sín í þáttum á borð við Sanditon, Warriors og Shadow and Bones.
Leikstjóri myndarinnar er Finninn Jyri Kähönen, sem áður hefur leikstýrt þáttum á borð við Bordertown og Trackers. Handritið er eftir Marteinn Þórisson, sem einnig skrifaði handrit fyrri myndarinnar.

Sagan fylgir áfram Kristínu og teymi hennar, sem leggja af stað í nýja og hættulega leit að goðsagnakenndum demöntum nasista, sem sagðir eru hafa verið faldir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þegar Kristín verður vitni að morði hefst röð atburða sem leiðir hana, ásamt Steve og Einari, inn í flókna ráðgátu dulmáls, tónbrota og stríðsminja. Leit þeirra spannar víðfeðmar slóðir Evrópu, allt frá íslenskum jöklum til finnskra skóga og neðanjarðarganga í Helsinki, þar sem dramatískur lokakafli fer fram í eyjaklasa Finnlands.
Frumsýnd næsta haust
Gert er ráð fyrir að myndin verði frumsýnd í Sambíóunum næstkomandi haust og síðar víða um heim. Beta Film fer með dreifingu í Evrópu og hefur myndin þegar verið seld til Bretlands, Frakklands, Spánar og Póllands. Þá hefur Magnolia Pictures tryggt sér réttinn til dreifingar í kvikmyndahúsum og sjónvarpi í Bandaríkjunum.
Framleiðendur myndarinnar eru Beggi Jónsson, Kjartan Þór Þórðarson og Skarphéðinn Guðmundsson fyrir Sagafilm, Aðalsteinn Jóhannsson fyrir Þungan hníf, ásamt Anitu Elsani og Alexander Klein fyrir Splendid Entertainment í Þýskalandi og Eero Hietala og Söru Nordberg fyrir Take Two Studios og Elsani Film. Tökur fara fram á Íslandi, í Turku í Finnlandi og í Hamborg.
Sameinar kraft
Sagafilm er eitt elsta starfandi framleiðslufyrirtæki landsins og hefur í nærri hálfa öld framleitt kvikmyndir, sjónvarpsefni og heimildamyndir fyrir innlendan og alþjóðlegan markað. Skarphéðinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sagafilm og einn framleiðenda myndarinnar, segir framhaldið mikilvægt skref í áframhaldandi alþjóðlegri uppbyggingu fyrirtækisins.
„Tár úlfsins sameinar kraft norrænnar glæpasagnahefðar, sögulegar vísanir og metnaðarfulla alþjóðlega kvikmyndagerð. Við byggjum áfram á arfleifð Arnaldar Indriðasonar og þeim árangri sem fyrri myndin náði, sem sýndi að íslenskar glæpasögur geta náð til áhorfenda víða um heim,“ segir Skarphéðinn í tilkynningu frá Saga film.



