Sena frumsýnir teiknimyndina Flóttinn frá jörðu, eða Escape from Planet Earth, eins og myndin heitir á frummálinu, föstudaginn 1. mars nk.
Þegar neyðarkall berst frá hinni dularfullu og hættulegu plánetu Jörðu ákveður hetja bláveranna, Scorch Supernova, að svara kallinu þrátt fyrir varnaðarorð bróður síns.
Flóttinn frá Jörðu er þrívíddarteiknimynd eftir Cal Brunker sem hefur unnið að teiknimyndum eins og Despicable Me og Horton Hears a Who! en leikstýrir hér sinni fyrstu mynd í fullri lengd.
Sjáðu íslensku stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Scorch Supernova er sannkölluð hetja himingeimanna og innilega dáður af sínu eigin kyni, Bláverjum, sem búa á plánetunni Baab. Scorch er talinn geta nánast allt en það vita hins vegar færri að á bak við afrek hans er yngri bróðir hans, hinn snjalli og úrræðagóði Gary, sem er jafnframt einn af aðalverunum í leyniþjónustu Bláverja, Basa. Dag einn lætur yfirstýra Basa, hinn skarpskyggna Lena, þá bræður vita að nýlega hafi borist neyðarkall frá plánetunni Jörðu. Svo virðist sem einhver þar sé í bráðri hættu. Vandamálið er að plánetan Jörð er stórhættulegur staður enda ríkja þar Menn sem er í nöp við aðrar geimverur.
Þrátt fyrir varnaðarorð bróður síns ákveður Scorch að svara kallinu og heldur til Jarðar, fullur af bjartsýni og góðum vilja. Hann er hins vegar ekki fyrr lentur en hann er handsamaður og það kemur í hlut
Garys að bjarga honum …
Flóttinn frá Jörðu verður einnig sýnd með íslensku tali og það eru Ævar Þór Benidiktsson, Viktor Már Bjarnasson, Sólmundur Hólm Sólmundarson, Hjálmar Hjálmarsson, Ágúst Örn Börgesson Wigum, Steinn Ármann Magnússon, Selma Björnsdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnadóttir og Sigurður Þór Óskarsson sem talsetja í leikstjórn Tómasar Freys Hjaltasonar.
Flóttinn frá jörðu verður frumsýnd á föstudaginn í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri.
Leikstjóri: Cal Brunker.
Handrit: Bob Barlen og Cal Brunker.
Aðalhlutverk: Brendan Fraser, Sarah Jessica Parker og Jessica Alba.
Frumsýnd: 1. mars.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíói, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri.