Heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, í ár er sænski leikstjórinn Lukas Moodysson, að því er fram kemur í tilkynningu frá RIFF. Hann fær „Verðlaun fyrir framúrskarandi listfengi“.
„Lukas Moodysson er Íslendingum að góðu kunnur og varla er til sá kvikmynda-áhugamaður sem þekkir ekki myndirnar hans Fucking Åmål (1998), Tilsammans (2000) og Lilya 4-ever (2002). Hingað kemur Lukas með glænýja mynd í farteskinu, Við erum bestar! (Vi är bäst!), sem fjallar um unglingsstelpur í Svíþjóð árið 1982, sem stofna pönkhljómsveit þrátt fyrir að allir segi þeim að pönkið sé dautt.“
Myndin er frumsýnd á Feneyjar-hátíðinni nú um helgina.
Samtals verða sýndar þrjár myndir eftir Moodysson á hátíðinni auk þess sem hann situr fyrir svörum á sérstökum Masterclass og á sýningum á myndum hans.
Nánari upplýsingar um höfundinn og myndirnar þrjár á RIFF eru hér fyrir neðan:
LUKAS MOODYSSON:
VERÐLAUN FYRIR FRAMÚRSKARANDI LISTFENGI
Lukas Moodysson er Íslendingum að góðu kunnur enda hafa myndir hans notið mikilla vinsælda hér. Varla er til sá kvikmyndaáhugamaður sem ekki þekkir þrjár fyrstu myndirnar hans; lesbíska unglingadramað Fucking Åmål (1998); hina stórskemmtilegu drama-gamanmynd Tilsammans (2000) og hina hræðilega áhrifamiklu Lilya 4-ever (2002).
Lukas fæddist í Lundi í Svíþjóð árið 1969 og fann snemma hjá sér þörf til að tjá hugsanir sínar með ljóðum. Fyrsta ljóðabókin kom út 1987 þegar hann var 17 ára og næstu árin komu fleiri ljóðabækur og fyrsta skáldsagan. Hann ákvað að snúa sér að kvikmyndagerð til að reyna að ná til fleiri með minna innhverft efni en skáldskapur hans hafði verið fram að því. Leið hans lá í kvikmyndanám í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi og eftir útskrift slípaðist hann sem leikstjóri með þremur stuttmyndum.
Óhætt er að segja að Moodysson hafi slegið rækilega í gegn með sinni fyrstu mynd í fullri lengd, Fucking Åmål. Myndin vakti athygli á leikstjóranum út um allan heim, enda hafði efnið; sannfærandi uppvaxtar- og ástarsaga unglingsstúlkna í sænskum svefnbæ, sterka og alþjóðlega skírskotun. Eftir fyrstu myndirnir þrjár, sem allar gengu mjög vel, tók Lukas þá ákvörðun að gera mynd sem beinlínis fældi fólk frá. Þessi áætlun hans gekk upp með hinni erfiðu tilraunamynd Ett hål i mitt hjärta (2004). Moodysson er þekktur talsmaður vinstri-armsins og femínista í stjórnmálum en er jafnframt kristinn og innilegur trúmaður í þeim efnum. Allir þessir eiginlegar hafa verið að koma betur og betur fram í verkum hans.
Lukas hefur ekki setið auðum höndum síðustu árin, heldur haldið áfram að þróa list sína. Hann hefur sent frá sér tvær kvikmyndir, tilraunamyndina Container (2006) og fyrstu leiknu kvikmyndina á ensku, Mammoth (2009). Þá snéri hann sér aftur að skáldskap með tveimur skáldsögum; Döden & co (2011) og Tolv månader i skugga (2012). Hingað kemur Lukas með glænýja mynd í farteskinu, hina krúttlegu Vi är bäst!
VIÐ ERUM BESTAR! / WE ARE THE BEST / VI ÄR BÄST
Director: Lukas Moodysson (SWE) 2013 / min
Þessi krúttlega en frakka mynd sendir okkur aftur til ársins 1982 í Stokkhólmi. Við kynnumst Bóbó, Klöru og Heiðveigu, þremur 13 ára stúlkum sem flækjast um göturnar. Þær eru hugrakkar og seigar og sterkar og veikburða og ringlaðar og skrýtnar og þurfa að sjá um sig sjálfar allt of snemma. Þær hita raspaðar fiskistangir í brauðrist meðan mamma er á barnum og stofna pönk-hljómsveit án nokkurra hljóðfæra, þrátt fyrir að allir segi að pönkið sé dautt.
ÁRANS ÅMÅL / SHOW ME LOVE / FUCKING ÅMÅL
Director: Lukas Moodysson (SWE) 1998 / 89 min
Þessi ljúfsára mynd um lífsleiða og örvæntingarfulla unglinga í sænska smábænum Åmål segir frá skólasystrunum Agnesi og Elínu og leit þeirra að ást og viðurkenningu í tilbreytingarsnauðu samfélagi. Þetta er einhver besta mynd sem hefur verið gerð um ungt fólk fyrr og síðar og þá kvöl að alast upp með samkynhneigðar tilfinningar í krummaskuði.
GÁMUR / CONTAINER
Director: Lukas Moodysson (SWE) 2006 / 72 min
Þessi framúrstefnulega mynd fylgir ekki hefðbundnum reglum um söguþráð og framvindu. Sjónarspilið er drungalegt svarthvítt umhverfi og gerist myndin að mestu í yfirgefnum iðnaðarhúsnæðum eða á ruslahaugum. Við fylgjumst með samskiptum manns og konu sem ekki segja neitt á meðan við heyrum hrjúfa en hvíslandi kvenmannsrödd flytja ljóðrænar, abstrakt hugsanir um fólk og fyrirbæri. Myndin er ferðalag um súrrealíska draumheima þar sem finna má ádeilu á neysluhyggju og popkúltúr samtímans.