Það er ekkert IMAX risabíó á Íslandi, en ef svo væri, ættu Star Trek aðdáendur von á góðu. Paramount kvikmyndafyrirtækið ætlar að sýna fyrstu níu mínúturnar úr myndinni Star Trek Into Darkness í IMAX 3-D bíóum þann 14. desember á undan sýningu á Hobbitamyndinni, The Hobbit: An Unexpected Journey.
Þetta verður í fyrsta skipti sem svona sýnishorn verður sýnt eingöngu í IMAX þrívíddarbíóum, og aðeins tvisvar áður hefur svona sérvalið sýnishorn verið sýnt í IMAX bíóum, eitt var á undan The Dark Knight og hitt á undan The Dark Knight Rises.
„Þessi bútur er algjörlega stórkostlegur,“ segir Greg Foster frá IMAX fyrirtækinu í frétt E – online.
Star Trek Into Darkness kemur í bíó þann 17. maí nk., en þeir sem geta ekki beðið ættu að fljúga til Bretlands og fara á Hobbitann í IMAX þann 14. desember.