Fyrsta Hollywood mynd Oplev – Ný stikla

Fyrsta stiklan er komin úr myndinni Dead Man Down, en það er fyrsta Hollywood verkefni sænska leikstjórans Niels Arden Oplev, sem er þekktur fyrir upprunalegu myndina Karlar sem hata konur, fyrsta hluta Millennium þríleiksins sem gerður var eftir bókum sænska rithöfundarins Stieg Larsson.

Í myndinni hefur Oplev fengið aftur til liðs við sig Noomi Rapace sem lék aðalhlutverkið í Karlar sem hata konur, Lisbeth Salander. Með henni leikur Colin Farrell meðal annars.

Söguþráðurinn er í stuttu máli að persóna Noomi Rapace neyðist til að beita  persónu Colin Farrell fjárkúgunum þegar hann reynir að hefna dauða eiginkonu sinnar og dóttur.

Sjáið stikluna hér fyrir neðan:

 

Miðað við það sem má sjá í stiklunni, undir kröftugu undirspili lagsins Shine On You Crazy Diamond, er von á hörku spennutrylli, og meðal annars má sjá rottur gæða sér á einhverju óheppnu fórnarlambi.

Í myndinni leika einnig Dominic Cooper, Terrence Howard og Isabelle Huppert.

Söguþráðurinn er þessi: Colin Farrell leikur Victor sem er hægri hönd undirheimaforingja í New York í Bandaríkjunum. Hann vill hefna dauða eiginkonu sinnar og dóttur, sem yfirmaður hans ber ábyrgð á. Þegar yfirmanni hans er hótað af dulafullum morðingja, þá þarf Victor að rannsaka málið. Victor er tældur og síðan er hann beittur fjárkúgun af Beatrice sem Noomi Rapace leikur. Hún er sjálf fórnarlamb glæpa, og leitar einnig hefnda en þau  leiðast í sameiningu inn í mikið hættuspil.

Dead Man Down verður frumsýnd 8. mars á næsta ári í Bandaríkjunum.