Í dag var opinberuð fyrsta kitlan úr fimmtu myndinni um Tortímandann, Terminator: Genisys. Kitlan er aðeins 15. sekúndur, en á morgun kemur stikla í fullri lengd.
Í kitlunni er okkur greint frá því að „hann“ sé mættur aftur til leiks og þá er væntanlega verið að tala um Arnold Schwarzenegger í hlutverki Tortímandans, en hann lék aðalhlutverkið í upprunalegu þremur myndunum.
Myndin mun einnig skarta þeim Jason Clarke og Jai Courtney. David Ellis og Laeta Kalorgridis (Avatar, Shutter Island) framleiða og Patrick Lussier (Drive Angry) skrifaði handritið.
Alan Taylor, sem leikstýrt hefur Game of Thrones sjónvarpsþáttunum og Thor: The Dark World, leikstýrir myndinni. Emilia Clarke, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í Game of Thrones, mun fara með hlutverk Söruh Connor.
Myndin er áætluð í kvikmyndahús þann 1. júlí, 2015. Hér að neðan má sjá kitluna.