Ný kvikmynd frá meistaraleikstjóranum Quentin Tarantino hefur verið staðfest og hefjast tökur á næstu mánuðum. Um er að ræða vestrann The Hateful Eight sem gerist nokkrum árum eftir borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum. Myndin fjallar í stuttu máli um harðsvíraða glæpamenn, hermann og fanga sem verða strandaglópar á bar í afskekktum bæ vegna veðurs.
Eins og flestum er kunnugt þá hætti Tarantino við að gera myndina eftir að handritið lak til umboðsmanna í Hollywood. Tarantino segist hafa komist að lekanum þegar umboðsmenn byrjuðu að hringja í hann og biðja um hlutverk fyrir leikara sína. Tarantino varð ævareiður í fyrstu og fór í mál við þá sem dreifðu handritinu á netinu, seinna meir róaðist Tarantino og setti upp leiklestur á handritinu. Tarantino staðfesti svo að myndi yrði gerð á Comic-Con ráðstefnunni sem fram fór í San Diego um helgina.
Hér að neðan má sjá fyrsta plakatið fyrir myndina. Þess má geta að neðst á plakatinu má sjá ártalið 2015. Áðdáendur mega því búast við að sjá myndina á næsta ári.