Leikarinn Liam Neeson endurtekur hlutverk sitt sem fyrrum leyniþjónustumaðurinn Bryan Mills í þriðja sinn í framhaldsmyndinni Taken 3, en færni hans í að elta uppi og misþyrma þorpurum kemur að góðum notum þegar hann og fjölskyldumeðlimir komast í hann krappann.
Fyrsta myndin kostaði 25 milljónir Bandaríkjadala, en þénaði næstum tíu sinnum það í miðasölunni, eða rúma 226 milljónir Bandaríkjadala. Taken 2 kostaði 45 milljónir dala og þénaði 376 milljónir dala.
Leikarinn Forest Whitaker fer einnig með veigamikið hlutverk í myndinni og Olivier Megaton, leikstjóri Taken 2, leikstýrir á nýjan leik. Nýjar myndir af Neeson og Whitaker í hlutverkum sínum litu dagsins ljós í dag og má sjá þær hér að neðan.