Danska kvikmyndin, Konan í búrinu, verður sýnd þann 18. október á Íslandi. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu um lögreglumanninn einþykka Carl Mørck, eftir Jussi Adler-Olsen. Kvikmyndin er gríðarlega vinsæl í heimalandinu og hefur slegið öll aðsóknarmet.
Ung dönsk þingkona hverfur sporlaust af ferju á leið til Þýskalands. Frami hennar hefur verið hraður enda er hún bæði greind og metnaðargjörn. Framdi hún sjálfsmorð? Var hún myrt? Var henni rænt? Lenti hún í slysi? Vildi hún láta sig hverfa? Það er eins og konan hafi gufað upp af yfirborði jarðar.
Lífið hefur leikið Carl Mørck grátt undanfarið og sér hann enga ástæðu til þess að brosa lengur, vinnan er sett í fyrirrúm og annað til hliðar. Þó Mørck sé með engu móti heillandi til að byrja með, þá er hann með réttlætiskennd. Þannig byrjar maður smátt og smátt að halda með honum og vonast til að hann nái markmiðum sínum.
Í þessu tilviki er markmiðið að finna út hvað gerðist fyrir þingkonuna Merete. Í deildinni Q, fær Mørck aðstoðarmanninn Assad, sem er ættaður frá mið-austurlöndum. Í fyrstu heldur maður að menningarlegir ágreiningar muni standa í veg fyrir þeim, en svo virðist ekki vera. Í sjálfu sér reynist þetta vera ein af fáu klisjum sem eru brotnar. Þar má telja upp lögreglustjórann sem stendur í veg fyrir Mørck og markmiðum hans, þunglyndur rannsóknarlögreglumaður í vandræðum heimafyrir, aðstoðarmaðurinn sem gerir slæmt kaffi og lengi mætti telja. Þrátt fyrir að klisjunar séu þarna, þá skemma þær ekki fyrir. Í sjálfu sér eiga þær fullan rétt á því að vera þarna. Þeim er haldið til haga og það er ágætlega unnið úr þeim.
Kvikmyndin á sér tvær hliðar á sömu sögu sem tvinnast saman því lengra sem líður á myndina. Við fylgjumst með Mørck og Assad, ásamt því að fylgjast með aðdragandunum að því hvernig Merete hvarf. Að flétta saman atburðarás úr fleiri en einni átt getur verið vandasamt. Í þessari kvikmynd er það gert snilldarlega. Ef við hefðum ekki fengið að fylgjast með atburðarás Merete á sama tíma þá hefðum við verið svolítið týnd og engin spenna hefði myndast.
Aðalleikarinn Nikolaj Lie Kaas fer vel með hlutverkið. Persónan er frekar litlaus við fyrstu sýn, en því lengur sem maður staldrar við verður hún áhugaverð. Að leika slíka persónu krefst þolinmæði og það verður örugglega freistandi að krydda hana upp. Kaas kryddar hana ekkert upp, hann leyfir henni að þróast með sögunni og á endanum sér áhorfandinn hvað býr innra við. Með hlutverk Assad fer lebanínski leikarinn Faren Faren og á marga góða spretti í vinalegu hlutverki sínu. Sonja Richter (Merete) á frábæran leik og lætur manni oft á tíðum líða illa með persónu sinni.
Kvikmyndagerðin sjálf er í stíl við margar vinsælustu skandinavísku glæpamyndir síðari ára og gerir stundum gott betur en það. Litagreining myndarinnar er með dökkt yfirbragð og kvikmyndatakan er dramatísk og drungaleg. Engar snarpar hreyfingar, öllu er tekið með ró og það er byggt spennu með hægum hreyfingum.
Konan í búrinu er spennuþrunginn kvikmynd með frábærum leikurum. Klisjurnar eru eilítið of margar, þó er oftar en ekki unnið vel úr þeim. Ef þú vilt láta koma þér á óvart, þá myndi ég láta þessa mynd eiga sig, aftur á móti myndi ég mæla með þessari kvikmynd fyrir þá sem elska reyfara og skandinavískar glæpamyndir.
★★★½