Spennumyndin Hanna hefur verið að moka inn umtali síðustu vikur, og fáeinir gagnrýnendur eru strax farnir að tala um að þetta sé ein af betri myndum sem þú munt sjá á árinu. Hvort sem svo verður eða ekki verður að koma í ljós en hún a.m.k. frumsýnd á morgun. Við ætlum að gefa opna miða og að sjálfsögðu eiga allir sem taka þátt í litla leiknum mínum möguleika á tveimur. Þið þekkið borinn.
Hanna er táningsstúlka sem hefur verið alin upp af föður sínum, fyrrum CIA-útsendara, í óbyggðum Finnlands. Hún er engin venjuleg táningsstúlka því hún er bæði sterkari, fljótari og skarpari en gengur og gerist. Uppeldið hefur allt snúist um að þjálfa hana til að verða miskunnarlaus og gallalaus launmorðingi. Til hvers er þetta uppeldi? Það kemur í ljós þegar hún er send til siðmenningarinnar af föður sínum til að framkvæma leynilegt verkefni. Eftir það sem virðist vera auðveld handtaka hennar af hinni dulu Marissu, þrautþjálfuðum og margreyndum leyniþjónustufulltrúa, snýst atburðarásin upp í banvænan eltingaleik um alla Evrópu, þar sem Hanna sleppur ítrekað undan útsendurum Marissu, en á leiðinni fer hún að spyrja sjálfa sig óþægilegra spurninga um hvað það er sem hún sé raunverulega að gera…
Núna fram að morgundeginum mun sérstakur leikur vera í gangi þar sem þú átt séns á opnum boðsmiða á myndina fyrir þig og gest. Það sem þú gerir er að svara skítléttri spurningu og sendir mér svarið á tommi@kvikmyndir.is. Merktu svo póstinn „Hanna“ en það er ekki lífsnauðsynlegt. Bara þægilegra á meðan fleiri en ein getraun er í gangi um þessar mundir. Ég dreg út snemma í fyrramálið þannig að vinningshafar geta kíkt á myndina samdægurs.
Hér kemur þetta:
Hver er leikstjóri myndarinnar og hvað hét myndin hans frá árinu 2007 sem skartaði einnig ungu leikkonuna Saroise Ronan?
Gangi ykkur vel og góða skemmtun.




