Ekki veit ég hversu vel notendur okkar hér þekkja til fyrstu Wall Street myndarinnar (enda fastagestir fæddir á bilinu 90-95), en það er klárlega mynd sem menn ættu annaðhvort að kynna sér til að byrja með eða tékka á aftur. Hún eldist furðu vel og er ennþá í dag ábyggilega „skemmtilegasta“ mynd Olivers Stone. Það er a.m.k. vel þess virði að horfa á hana, ef ekki bara útaf frammistöðu Michael Douglas, sem er löngu orðin… ja… býsna legendary.
Ég ætla núna að gera tilraun til þess að gleðja ýmsa notendur með því að gefa DVD eintök af þessari mynd. Nýliðar geta loks kynnt sér hana, og þeir sem eru eldri eða lengra komnir geta fengið bullandi högg af nostalgíu við það að horfa á hana aftur. Gleymum því svo ekki að á morgun verður framhaldsmyndin frumsýnd um land allt. Og ég ætla LÍKA að gefa boðsmiða á hana.
Wall Street: Money Never Sleeps gerist árið 2008. Efnahagskerfi heimsins er að hruni komið (hver getur gleymt því?) þegar ungur miðlari (Shia LaBeouf) fer að vinna með alræmdum hauki af Wall Street, Gordon Gekko (Douglas – vitaskuld). Fyrirætlun þeirra er tvíþætt; að vara efnahagskerfi heimsins við væntanlegu hruni, og að finna út úr því hver bar ábyrgð á dauða á læriföður unga miðlarans. Með aukahlutverk fara Carey Mulligan, Frank Langella, Josh Brolin, Eli Wallach og Susan Sarandon.
Ef þig langar að reyna að vinna þér inn tvo almenna boðsmiða á Wall Street: Money Never Sleeps, þá þarftu einungis að svara þessari spurningu:
– Hvern lék Josh Brolin í seinustu mynd Olivers Stone og hvað hét hún?
Ef þig langar að reyna að vinna bíómiða OG sérstaka tveggja diska DVD safnútgáfu af fyrri myndinni (sjáið massaflotta coverið á henni hér fyrir neðan), þá er þessi spurning málið:
– Frá hvaða ári er fyrri myndin?
Svör sendast sem fyrr á tommi@kvikmyndir.is og vinningshafar – sem dregnir verða af handahófi – fá sendan tölvupóst um hádegið á föstudaginn (á morgun).
Góða skemmtun. Græðgi er góð.
T.V.





