Liam Neeson tyllti sér á topp bíóaðsóknarlistans í Bandaríkjunum um helgina þegar mynd hans Unknown, var mest sótta myndin þar í landi.
Myndin þénaði 21,8 milljón Bandaríkjadali.
Myndin fjallar um grasafræðing, sem Neeson leikur, sem vaknar eftir bílslys í Berlín. Lífið hefur greinilega eitthvað tekið nýja stefnu því eiginkona hans segist nú ekki þekkja hann, og annar maður segist vera hann.
Vísindaskáldsagan I am Number Four lenti í öðru sæti, en í myndinni leikur Alex Pettyfer ungling sem er ættaður utan úr geimnum, sem er að fela sig á Jörðinni fyrir illum öflum sem eru búin að drepa fjölskyldu hans. Gagnrýnendur vestra höfðu spáð myndinni fyrsta sæti, en hún náði því ekki og þénaði aðeins 19,5 milljónir dala, þrátt fyrir væntingar um annað.
Teiknimyndin Gnomeo og Juliet lenti í þriðja sæti rétt á eftir I am Number Four, með 19,4 milljónir dala.
Myndin er fjölskyldumynd byggð á sögu Shakespeare, með þeim James McAvoy og Emily Blunt sem tala fyrir aðalhetjurnar, og tónlistina sér sjálfur Sir Elton John um.
Fjórða sætið hirti rómantíska gamanmyndin Just Go With It með Adam Sandler og Jennifer Aniston, en hún var í efsta sæti um síðustu helgi.
Martin Larence myndin Big Mommas: Like Father, Like Son var frumsýnd um helgina, og lenti í fimmta sæti með 17 millónir dala í aðgangseyri.
Unglingastjarnan Justin Biber kom þar á eftir með 13,6 milljónir fyrir mynd sína Never Say Never. Í myndinni er ferill Bibers rakinn frá því hann var smástrákur í Kanada, þar til hann er orðinn alheimsstjarna, en drengurinn er enn aðeins 16 ára gamall, og verður 17 ára í næsta mánuði.
The King´s Speech kom næst á eftir Biber og þar á eftir var hryllingsmyndin The Roommate með 4,1 milljón, rétt á undan The Eagle.
Tíunda sæti kom svo í hlut No Strings Attached, sem er rómantísk gamanmynd þeirra Natalie Portman og Ashton Kutcher.