Gravity leikstjórinn Alfonso Cuaron vann í gær Gullna ljónið, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, fyrir nýjustu kvikmynd sína Roma.
Myndin er dramamynd tekin í svart-hvítu, og er byggð á endurminningum leikstjórans frá því þegar hann var að alast upp í Mexíkóborg, snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Kvikmyndin er einnig fyrsta mynd hans í nokkurn tíma sem hann gerir á móðurmálinu spænsku.
Variety lýsir myndinni sem persónulegasta verki leikstjórans til þessa, og fjallar um tvo verkamenn af ætt Mixteco, sem vinna hörðum höndum fyrir fjölskyldum sínum í miðstéttarhverfinu Roma.
„Þessi verðlaun og þessi hátíð eru mér ótrúlega mikilvæg,“ sagði Cuaron þegar hann tók við verðlaununum, og þakkaði framleiðandanum David Linde og Ted Sarandos og Scott Stuber frá Netflix, sérstaklega.
Þá þakkaði hann leikhópnum og leikkonunum Marina De Tavira, Yalitza Aparicio og Nancy Garcia fyrir hugrekki, örlæti, og virðingu, í túlkun á konunum sem ólu hann upp.
Cuaron var síðast á Feneyjahátíðinni með þrívídaddargeimmynd sína Gravity árið 2013, en hún var sýnd utan keppni á þeim tíma, og vann síðar sjö Óskarsverðlaun.
Af öðrum sigurvegurum á hátíðinni, þá ber að nefna The Favourite, eftir gríska leikstjórann Yorgos Lanthimos, en myndin, sem er dökk búninga-gamanmynd tekin upp á ensku, vann tvö stór verðlaun, annarsvegar næst eftirsóttustu verðlaunin, dómnefndarverðlaunin, Grand Jury Prize, og hinsvegar vann leikkonan Olivia Colman Coppa Volpi verðlaunin, fyrir bestan leik kvenna í aðalhlutverki, fyrir túlkun sína á hinni sjúku Anne drottningu á 18. öld, illa hæfum einvaldi, sem varla fór fram úr rúminu, nema til að ferðast um höllina í hjólastól.
Colman mun leika Elísabetu Englandsdrottningu í næstu þáttaröð af The Crown á Netflix, sem nú er í framleiðslu.