Handritshöfundurinn David Goyer hefur skrifað þónokkrar kvikmyndir og má þar nefna nýja Batman þríleikinn, Blade myndirnar og nýjustu Superman myndina Man of Steel. Goyer hefur aftur á móti ekki sest oft í leikstjórastólinn og nú reynir á því hann hefur tekið að sér að leikstýra nýrri mynd um hina sívinsælu sögu um Greifann af Monte Cristo.
„Á mínum ferli hef ég notið þess að endurskapa þekktar sögupersónur og tengt þær betur við nútíma áhorfendur. Ég fékk í hendurnar frábært handrit og er spenntur á að takast við þetta verkefni og koma með nýja nálgun á þetta verk.“ segir Goyer.
Greifinn af Monte Cristo hefur verið endursögð í öllum listformum sem til eru og þekkja eflaust allir söguna. Til þess að hressa upp á minnið fyrir þá sem hafa gleymt eða þekkja ekki til Greifans þá fjallar sagan um Edmond Dantes sem er ranglega settur í fangelsi á eyju. Þar kynnist hann eldri manni og mynda þeir mikinn vinskap. Eldri maðurinn vísar honum einnig á fjársjóð og þegar Dantes sleppur úr fangelsi finnur hann fjársjóðinn og notar hann til að byggja upp nafn, ríkidæmi og til þess að ná hefndum á þeim sem settu hann í fangelsi.
Goyer er tvímælalaust frábær handritshöfundur en kvikmyndirnar sem hann hefur leikstýrt hafa fengið miðlungs dóma. Nú er bara að bíða og sjá hvort hann fari vel með þessa frábæru sögu.
Seinasta kvikmynd sem var gerð um Greifann af Monte Cristo kom út árið 2002 og var í leikstjórn Kevin Reynolds. Með aðalhlutverk fóru Jim Caviezel, Richard Harris og Guy Pierce.