Vulture vefmiðillinn greinir frá því að Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið eigi nú í viðræðum við fyrirtæki leikstjórans og framleiðandans Steven Spielberg, Amblin Entertainment, um að endurræsa ( reboot ) hryllings-gamanmyndina Gremlins frá árinu 1984. Eftir fyrstu myndina var gerð ein framhaldsmynd sem frumsýnd var árið 1990.
Myndin segir frá því þegar strákur í ógáti, brýtur þrjár mikilvægar reglur varðandi nýja krúttlega gæludýrið sitt, og leysir úr læðingi hjörð meinfýsinna og ógeðfelldra lítilla skrýmsla.
Heimildir vefmiðilsins herma að viðræður af þessu tagi hafi átt sér stað nokkrum sinnum í gegnum árin, en aldrei farið nógu langt. Í þetta sinn hafa menn þó trú á að viðræður gætu farið alla leið.
Steven Spielberg framleiddi upprunalegu myndina en Joe Dante leikstýrði.