Önnur myndin úr framhaldsmyndinni Dumb and Dumber To hefur verið opinberuð og má þar sjá vinina Harry Dunne og Lloyd Christmas snyrta sig fyrir komandi heimskupör. Harry dembir sér í kalda sturtu á meðan Lloyd tannburstar sig með handklæði á hausnum.
Dumb and Dumber To verður frumsýnd þann 14. nóvember næstkomandi og á frumsýningardaginn þá munu aðeins verða þrjár vikur í að tuttugu ár verði liðin frá frumsýningu fyrstu myndarinnar, Dumb and Dumber, sem þénaði meira en 250 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim.
Leikstjórar eru þeir bræður Peter og Bobby Farrelly, en Dumb and Dumber var fyrsta mynd þeirra sem leikstjóra. Jim Carrey og Jeff Daniels fara á ný með aðalhlutverkin og Óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Lawrence fer með aukahlutverk í myndinni, þar sem hún leikur hlutverk persónu Kathleen Turner á yngri árum.
Dumb And Dumber To segir frá því þegar þeir félagar Lloyd og Harry fara í ferðalag til að leita að barni sem Harry vissi ekki að hann ætti.