HBO Max á Íslandi: Aðgengilegt seinni hluta næsta árs

Streymisveitan HBO Max verður aðgengileg á Íslandi árið 2021. Í fréttatilkynningu frá Andy Forssell, forstjóra HBO Max Global, kemur fram að streymið muni stækka við sig og verða fáanlegt á Evrópumarkaði og Suður-Ameríku upp úr síðari hluta næsta árs. Litla Ísland fær að fljóta með í þeim hópi. Streymið opnaði í maí á þessu ári í Bandaríkjunum.

Þó ekki hafi enn fengist nákvæm dagsetning, telst þetta þó til svars. Ófáir utan Bandaríkjanna hafa velt fyrir sér hvenær Evrópa og önnur lönd að gætu nálgast efni HBO Max á löglegan máta.

Nýverið tilkynnti forsvarsfólk veitunnar að fjöldi stórmynda frá Warner Bros. verði frumsýndar samtímis í bíóhúsum og HBO Max á næsta ári. Hermt er þó að þetta muni eingöngu gilda í Bandaríkjunum að svo stöddu en þessi ákvörðun var til að bregðast við kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. Loka hef­ur þurft kvik­mynda­hús­um víða vestanhafs vegna veirunn­ar og fyr­ir vikið hef­ur hrikt í stoðum Hollywood. „Við erum uppi á for­dæma­laus­um tím­um sem krefjast skap­andi lausna,“ sagði Ann Sarnoff, yf­ir­maður Warner Bros. í yfirlýsingu.

Á meðal þeirra mynda sem munu fylgja þessu nýja frumsýningarplani eru “The Little Things, “Judas and the Black Messiah,” “Tom & Jerry,” “Godzilla vs. Kong,” “Mortal Kombat,” “Those Who Wish Me Dead,” “The Conjuring: The Devil Made Me Do It,” “In The Heights,” “Space Jam: A New Legacy,” “The Suicide Squad,” “Reminiscence,” “Malignant,” “Dune,” “The Many Saints of Newark,” “King Richard,” “Cry Macho,” og “Matrix 4.”